12. jan. 2018

Viðurkenningar fyrir framlag til íþrótta- og æskulýðsstarfs

Á íþróttahátíð Garðabæjar sem fór fram 8. janúar sl. voru veittar viðurkenningar fyrir framlag til íþrótta- og æskulýðsstarfs. Í ár voru það Halldór Klemenzson, Golfklúbbi Álftaness og Guðrún Jónsdóttir, Stjörnunni sem hlutu þær viðurkenningar.

  • Íþróttahátíð Garðabæjar
    Íþróttahátíð Garðabæjar

Á íþróttahátíð Garðabæjar sem fór fram 8. janúar sl. voru veittar viðurkenningar fyrir framlag til íþrótta- og æskulýðsstarfs.  Í ár voru það Halldór Klemenzson, Golfklúbbi Álftaness og Guðrún Jónsdóttir, Stjörnunni sem hlutu þær viðurkenningar.

Sjá frétt hér um íþróttahátíðina og hverjir urðu íþróttamenn Garðabæjar 2017. 

Halldór Klemenzson byrjaði í Golfklúbbi Álftaness árið 2012. Árið eftir tók hann að sér starf gjaldkera og sinnti því í þrjú ár. Hann hefur síðast liðin tvö ár sinnt formennsku í félaginu. Halldóri hefur verið umhugað að efla starf barna, unglinga og eldri kylfinga innan klúbbsins. Hann hefur þannig talað fyrir því að golf sé íþrótt fyrir alla aldurshópa og með mikið lýðheilsulegt gildi auk þess að vera skemmtileg íþrótt. Öll þessi ár hef hann unnið mikið sjálfboðastarf fyrir klúbbinn, bæði í stjórn GÁ, sem vallarstjóri og við uppbyggingu og umhirðu vallarins. Þetta starf hefur verið honum afar hugleikið og tekið svo gott sem allar hans frístundir. Halldóri tekst vel að virkja krafta annara stjórnarmanna og viljugra kylfinga í klúbbnum til þess að koma að starfinu.


Guðrún Jónsdóttir hefur verið í barna og unglingaráði handboltadeildar Stjörnunnar frá 2011 og verið formaður þess ráðs frá 2013. Hún hefur þar af leiðandi setið í stjórn handboltans frá þeim tíma. Auk þess var hún í Kvennakvöldsnefnd Stjörnunnar 2013-2016. Guðrún hefur haft það að leiðarljósi í gegnum tíðina að vera með faglega þjálfara barna og unglinga í handboltanum í Garðabæ. Jafnframt að vera með ábyrga fjármálastefnu og stjórnun á öllu sem hún tekur sér fyrir hendur. Guðrún er gift Sævari Magnússyni sem einnig er virkur sjálfboðaliði og eiga þau 4 börn sem öll hafa verið eða eru í handboltanum í Stjörnunni. Guðrún er mjög traustur félagi í starfi handboltadeildarinnar og fylgir vel eftir áhugamálum barna sinna.