12. jan. 2018

Lið ársins og þjálfari ársins 2017

Meistaraflokkur kvenna í hópfimleikum hjá Stjörnunni var valið lið ársins á íþróttahátíð Garðabæjar sem fór fram 8. janúar sl. Þá var einnig tilkynnt um val á viðurkenningu fyrir þjálfara árins sem að þessu sinni var Halldór Ragnar Emilsson þjálfari í knattspyrnudeild Stjörnunnar.

  • Lið ársins
    Lið ársins

Meistaraflokkur kvenna í hópfimleikum hjá Stjörnunni var valið lið ársins á íþróttahátíð Garðabæjar sem fór fram 8. janúar sl. Þá var einnig tilkynnt um val á viðurkenningu fyrir þjálfara árins sem að þessu sinni var Halldór Ragnar Emilsson þjálfari í knattspyrnudeild Stjörnunnar. 

Sjá frétt hér um íþróttahátíðina og hverjir urðu íþróttamenn Garðabæjar 2017. 

Lið ársins 2017 - Meistaraflokkur kvenna í hópfimleikum hjá Stjörnunni

Norðurlandameistarar Stjörnunnar í hópfimleikum er lið ársins 2017. Liðið varði á árinu titil sinn sem Norðurlandameistarar í hópfimleikum eftir harða keppni. Þær urðu einnig bikarmeistarar og deildarmeistarar árinu og eru því ríkjandi meistarar á þrjá vegu í dag. Slíkur árangur næst ekki nema að baki sé mikil vinna og ástríða fyrir íþróttinni. Liðið er þekkt fyrir mikla samheldni og flottar æfingar, leikgleði og metnað. Stúlkurnar í kvennaliði Stjörnunnar eru miklar fyrirmyndir fyrir aðra iðkendur og eiga heiður skilið fyrir árangur sinn á árinu. 
Í liðinu eru: Andrea Sif Pétursdóttir, fyrirliði, Aníta Sól Tyrfingsdóttir, Anna María Steingrímsdóttir, Anna Sigríður Guðmundsdóttir, Guðrún Georgsdóttir, Hekla Mist Valgeirsdóttir, Hrafnhildur Magney Gunnarsdóttir, Íris Arna Tómasdóttir, Jónína Marín Benediktsdóttir, Kolbrún Þöll Þorradóttir, María Líf Reynisdóttir, Marín Elvarsdóttir, Norma Dögg Róbertsdóttir, Sara Margrét Jóhannesdóttir, Snædís Ósk Hjartardóttir, Tinna Ólafsdóttir, Valdís Ellen, Þórdís Ólafsdóttir, Þórey Ásgeirsdóttir.
Yfirþjálfari liðsins var Nicleas Jerkeholt.

 

Þjálfari ársins 2017 - Halldór Ragnar Emilsson knattpyrnuþjálfari hjá Stjörnunni

Þjálfari ársins Halldór Ragnar EmilssonHelstu þættir sem ÍTG lagði til grundvallar við val sitt á þjálfara ársins voru að hafa náð góðum árangri með liðið/flokkinn/hópinn, að viðkomandi væri relgusamur og áreiðanlegur og fagmennsku viðkomandi. Halldór Ragnar Emilsson uppfyllir öll þau skilyrði. Hann er Garðbæingur uppalin hjá Stjörnunni og lék upp alla yngri flokka hjá félaginu. Halldór byrjaði ungur að koma að þjálfun hjá félaginu og hefur verið viðloðandi þjálfun síðan hann var um 15 ára gamall. Fyrstu árin sem aðstoðarþjálfari í hinum ýmsu flokkum og sem aðalþjálfari síðustu tæpu 10 árin þar sem hann hefur verið með 7. og 6. fl. karla.

Halldór hefur verið einstaklega farsæll í starfi, hann hefur alltaf lagt mikið upp úr metnaðarfullum æfingum þar sem öll kennsla er til fyrirmyndar og því að spila góðan fótbolta í anda Stjörnunnar.
Halldór var við nám í Danmörku í 2 ár þar sem hann þjálfaði yngri flokka hjá IF Lyseng. Halldór notaði tengslin sem hann myndaði í Danmörku til að koma á fót samstarfi á milli Lyseng og Stjörnunnar sem hefur verið virkilega farsælt. Þá hefur hann einnig verið í lykilhlutverki í kringum TM-mót Stjörnunnar sem er orðið eitt fjölmennasta mót landsins.