8. jan. 2018

Andrea Sif og Pétur Fannar eru íþróttamenn ársins 2017

Íþróttamenn Garðabæjar árið 2017 eru Andrea Sif Pétursdóttir fimleikakona úr Stjörnunni og Pétur Fannar Gunnarsson dansari í Dansfélagi Reykjavíkur.

  • óna Sæmundsdóttir forseti bæjarstjórnar Garðabæjar, móðir Péturs Fannars Gunnarssonar dansara sem var erlendis, Andrea Sif Pétursdóttir fimleikakona, Gunnar Einarsson bæjarstjóri og Björg Fenger forma
    óna Sæmundsdóttir forseti bæjarstjórnar Garðabæjar, móðir Péturs Fannars Gunnarssonar dansara sem var erlendis, Andrea Sif Pétursdóttir fimleikakona, Gunnar Einarsson bæjarstjóri og Björg Fenger formaður íþrótta- og tómstundaráðs Garðabæjar.

Íþróttamenn Garðabæjar árið 2017 eru Andrea Sif Pétursdóttir fimleikakona úr Stjörnunni og Pétur Fannar Gunnarsson dansari í Dansfélagi Reykjavíkur.

Tilkynnt var um kjör þeirra sunnudaginn 7. janúar sl. við hátíðlega athöfn í íþróttamiðstöðinni Ásgarði. Lið ársins 2017 er meistaraflokkur kvenna í hópfimleikum hjá Stjörnunni. Einnig var endurvakin viðurkenning fyrir þjálfara ársins sem að þessu sinni var Halldór Ragnar Emilsson þjálfari í knattspyrnudeild Stjörnunnar.   

Björg Fenger, formaður íþrótta- og tómstundaráðs Garðabæjar, bauð gesti velkomna og stýrði dagskránni. Boðið var upp á tónlistaratriði frá Tónlistarskóla Garðabæjar og fimleikaatriði þar sem hópar úr yngri flokka starfi fimleikadeildar Stjörnunnar sýndu listir sínar á áhaldafimleikagólfinu og stökkbrautinni. 

Viðurkenningar fyrir frábæran árangur innanlands sem utanlands

Á hátíðinni voru veittar viðurkenningar fyrir framúrskarandi árangur, þ.e. til einstaklinga sem hlutu Íslands-, bikar- eða deildarmeistaratitla eða settu Íslandsmet. Í þetta sinn voru það alls 244 einstaklingar sem hlutu viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur innanlands.
Alls hlutu 26 einstaklingar viðurkenningar fyrir A-landsliðsþátttöku og 29 einstaklingar fengu viðurkenningu fyrir þátttöku með yngra landsliði.  Einnig hlutu 20 einstaklingar viðurkenningu fyrir árangur á erlendum vettvangi, EM, NM eða sambærilegt. 

Á hátíðinni voru veittar viðurkenningar fyrir framlag til íþrótta- og æskulýðsstarfs og í ár voru það eftirtaldir einstaklingar sem fengu þær viðurkenningar: Halldór Klemenzson, Golfklúbbi Álftaness og Guðrún Jónsdóttir, Stjörnunni. 

Viðurkenningar á hátíðinni - nafnalisti (pdf-skjal)

Um íþróttamenn Garðabæjar 2017

Íþróttakarl Garðabæjar er Pétur Fannar Gunnarsson, dansari í Dansfélagi Reykjavíkur

Pétur Fannar Gunnarsson hefur æft dans frá 3ja ára aldri. Hann er 19 ára og hefur átt glæsilegan feril í gengum árin. Þessu fylgja mikil og ströng ferðalög og æfingar bæði hér heima sem erlendis. Hann dansar við Polina Odd frá Úkraínu sem er aðeins 17 ára og eru þau bæði búsett hér í Garðabæ. Þau æfa og keppa með Dansfélagi Reykjavíkur. Pétur keppir bæði í aldursflokki undir 21 árs og flokki fullorðinna í latin dönsum. Hann hefur verið í A landsliði síðastliðin tvö ár. 
Pétur Fannar og Polina Odd urðu heimsmeistarar í suður-amerískum dönsum undir 21 árs, en Heimsmeistaramótið WDC fór fram í París 11. desember sl.. Þetta frábæra danspar skráði þar með nýtt afrek í sögubækur landsins en Pétur og Polina unnu einnig HM 2016 og eru því einu Íslendingarnir sem hafa unnið heimsmeistaratitil tvö ár í röð. Þau sigruðu International Championship í október og urðu í 2. sæti í Blackpool. Þau sigruðu einnig RIG og urðu Íslandsmeistarar á árinu. Auk þessa unnu þau sigur á Lotto Open nú í nóvember. 

Íþróttakona Garðabæjar er Andrea Sif Pétursdóttir, fimleikakona í Stjörnunni

Andrea hefur gegnt stöðu fyrirliða í meistaraflokki Stjörnunnar í hópfimleikum kvenna síðustu þrjú ár og á það sæti vel skilið. Hún er metnaðarfull, drífandi, leggur hart að sér og er með skýr markmið. Andrea er sterkur liðsmaður innan salarins sem utan og er mikil fyrirmynd fyrir aðra iðkendur í Stjörnunni og á landinu öllu. Hún hefur mikla ástríðu fyrir fimleikum, sem hefur skilað sér í því að hún hefur verið lykilmaður í landsliðum Íslands í hópfimleikum síðustu ár, hvort sem er á Norðurlandamóti eða Evrópumóti. Andrea varð á árinu Norðurlandameistari, Bikarmeistari og Deildarmeistari með meistaraflokki Stjörnunnar í hópfimleikum kvenna. Hún var valin í úrvalslið NM og valin fimleikakona ársins af FSÍ.