21. nóv. 2017

Flataskóli orðinn réttindaskóli UNICEF

Flataskóli ásamt Laugarnesskóla fengu í gær, á alþjóðlegum degi barna, viðurkenningar fyrir að vera fyrstu tveir skólarnir á Íslandi sem fá titilinn réttindaskóli UNICEF

  • Haldið upp á titilinn titilinn réttindaskóli UNICEF í Flataskóla
    Haldið upp á titilinn réttindaskóli UNICEF í Flataskóla

Flataskóli ásamt Laugarnesskóla fengu í gær, á alþjóðlegum degi barna, viðurkenningar fyrir að vera fyrstu tveir skólarnir á Íslandi sem fá titilinn réttindaskóli UNICEF.  Auk skólanna tveggja hlutu frístundaheimilin Krakkakot og Laugarsel einnig viðurkenningu frístundaheimila. Fulltrúar í réttindaráðum skólanna tóku við viðurkenningunum og fengu þau Ævar vísindamann til þess að bera skilaboð frá börnum skólanna til ráðamanna á Íslandi.

Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna innleiddur í skólastarfið

Réttindaskólar UNICEF byggja á hugmyndafræði að alþjóðlegri fyrirmynd, sem innleidd hefur verið í þúsundum skóla um allan heim með góðum árangri. Réttindaskólar vinna markvisst að því að börn, starfsfólk skóla, foreldrar og aðrir sem tengjast skólunum þekki réttindi barna og beri virðingu fyrir þeim. Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna er lagður til grundvallar í starfi skólanna og unnið er að því að skapa umhverfi sem byggir á þátttöku barna, jafnrétti, lýðræði og virðingu. 

Frekari upplýsingar um athöfnina í gær og um starf UNICEF (Barnahjálpar Sameinuðu Þjóðanna) að réttindamálum barna má finna hér í frétt á vef UNICEF.

Einnig má lesa umfjöllum RÚV um athöfnina hér.