Fyrsta ungmennaþing Garðabæjar fór vel fram
Ungmennaráð Garðabæjar stóð fyrir fyrsta ungmennaþingi bæjarins miðvikudaginn 8. nóvember í sal Tónlistarskólans.
Fyrsta ungmennaþing Garðabæjar var haldið miðvikudaginn 8. nóvember sl. í sal Tónlistarskóla Garðabæjar í Kirkjulundi, á vegum ungmennaráðs Garðabæjar.  Ungmennum á aldrinum 14-20 ára var boðið að taka þátt í þinginu. 
 
 Gunnar Einarson bæjarstjóri setti þingið og Birta Hjaltadóttir, formaður ungmennaráðs, kynnti ráðið og þingið fyrir ungmennum. Margar áhugaverðar hugmyndir komu fram og spunnust umræður í kjölfar þeirra. Ungmennaráð Garðabæjar mun fara yfir allar ábendingar og hugmyndir sem fram komu og koma þeim áleiðis í nefndir og ráð bæjarins. Í lok þingsins komu JóiPé og Króli, tóku fjölmörg lög og spjölluðu við hópinn. Enginn fór svangur heim því gómsætar pizzur voru í boði fyrir mannskapinn. 
 
 Dæmi um ábendingar og tillögur sem fram komu: 
 • Meira símat í skólum en jafnframt undirbúningur fyrir krefjandi framhaldsskólanám. 
 • Aukin áhersla á vímuefnafræðslu fyrir 10. bekk. 
 • Hafa félag þar sem unga fólkið má stjórna í tómstundarstarfi sem það hefur áhuga á. 
 • Vantar mínigolf í Garðabæ. 
 • Vantar aðstöðu fyrir framhaldsskólanemendur til að læra undir lokapróf, t.d. kaffihús eða lesstofur. 
 • Gefa ungmönnum með ADHD tölvur. 
 • Kaffihús með þæginlegri stemningu. 
 • Setja viðvörunarmerki vegna fugla á leiðinni á Álftanesið. 
 • Grænar tunnur í Garðabæ. 
 • Skólastrætó sem skutlar nemendum heim eftir skóla. 
 • Ungmennahús sem ungmenni geta lært í og verið saman þar. 
 
 Ungmennaráð þakkar öllum þeim sem komu á þingið fyrir komuna og skemmtilega samveru. 
