9. nóv. 2017

Gönguleið meðfram ströndinni í Gálgahrauni

Merkingu og hnitsetningu á strandleið um Gálgahraun er lokið. Leiðin liggur nálægt strönd hraunsins að Lambhúsatjörn með sýn á Bessastaði. Merking gönguleiðarinnar hófst í vor þegar Erla Bil Bjarnardóttir, fyrrum umhverfisstjóri Garðabæjar, tók að sér að sér að merkja gönguleið í úfnu hrauninu, en um marga gönguslóða er þar að velja. Leiðin er stikuð nokkuð þétt til að auðvelda göngufólki gönguna.
  • Séð yfir Garðabæ

Merkingu og hnitsetningu á strandleið um Gálgahraun er lokið. Leiðin liggur nálægt strönd hraunsins að Lambhúsatjörn með sýn á Bessastaði. Merking gönguleiðarinnar hófst í vor þegar Erla Bil Bjarnardóttir, fyrrum umhverfisstjóri Garðabæjar, tók að sér að sér að merkja gönguleið í úfnu hrauninu, en um marga gönguslóða er þar að velja. Leiðin er stikuð nokkuð þétt til að auðvelda göngufólki gönguna.

Rétt er að benda göngufólki á sem ætla að leggja leið sína um þennan hluta hraunsins að þetta er ekki greið gönguleið, því þarf fólk að vera vel útbúið í góðum gönguskóm. Hraunið er úfið og getur verið erfitt yfirferðar, leiðin nær á nokkrum stöðum upp fyrir víkur sem gæta flóðs og fjöru. Tilvalið er fyrir þá sem koma akandi að leggja bílum sínum á malarplani við Hraunsvik. Gönguleiðin er stikuð með grænmáluðum hælum, sjá meðfylgjandi myndir með frétt. 

Friðlandið Gálgahraun

Gálgahraun var friðlýst sem friðland árið 2009 alls 108 hektarar. Verndargildi Gálgahrauns liggur ekki síst í því hversu ósnortið það er, þar sem hraunið er að mestu óraskað. Forsendur friðlýsingarinnar eru jarðmyndanir, gróðurfar, fuglalíf og menningarminjar en í hrauninu er t.d. að finna Fógetagötu þar sem leiðin til Bessastaða lá allt fram á nítjándu öld og Gálgakletta sem er talinn forn aftökustaður sem hraunið dregur nafn sitt af. Þegar gengið er um Gálgahraunið er athyglisvert að skoða framvindu gróðurs og hve uppgróið það er, kemur það til af áfoki fræs s.s. birkis og fuglar hafa sáð reynitrjám um hraunið.

Fógetastígur í Wapp-inu

Í leiðsagnarappinu Wapp-inu má finna fjölmargar gönguleiðir í Garðabæ sem má hlaða niður endurgjaldslaust í boði Garðabæjar.  Þar á meðal er gönguleið er nefnist Fógetastígur í Gálgahrauni.