6. nóv. 2017

Tónlistarveisla í skammdeginu 9. nóvember nk.

Hin árlega Tónlistarveisla í skammdeginu verður haldin fimmtudaginn 9. nóvember nk. kl. 21:00, á Garðatorgi. Í ár er það hljómsveitin Moses Hightower sem stígur á svið innandyra í göngugötunni á Garðatorgi.
  • Séð yfir Garðabæ

Hin árlega Tónlistarveisla í skammdeginu verður haldin fimmtudaginn 9. nóvember nk. kl. 21:00, á Garðatorgi.  Í ár er það hljómsveitin Moses Hightower sem stígur á svið innandyra í göngugötunni á Garðatorgi og flytur ný og fersk lög af nýrri plötu sinni, Fjallaloft, sem og lög af fyrstu plötum sveitarinnar.  Hljómsveitarmeðlimir hafa fest sig í sessi sem metnaðarfullir flytjendur seigfljótandi og sálarskotinnar tónlistar.  Þegar önnur plata sveitarinnar kom út árið 2012 var hún valin plata ársins hjá Fréttablaðinu og það sama ár fékk hljómsveitin Menningarverðlaun DV og hlaut ,,Íslensku tónlistarverðlaunin“ fyrir lagasmíðar og textagerð.  Nýverið sendi hljómsveitin frá sér sína þriðju breiðskífu ,,Fjallaloft“ og mörg laganna þar hafa verið þaulsetin á vinsældarlistum undanfarinna vikna. 


Myndlistarsýningar á torginu – opið lengur í Hönnunarsafninu

Í Hönnunarsafni Íslands við Garðatorg opnaði nýverið sýningin ,,Íslensk plötuumslög“ og svo skemmtilega vill til að þar er einmitt til sýnis plötuumslag af nýjustu breiðskífu hljómsveitarinnar Moses Hightower.  Hönnunarsafnið ætlar að vera með opið lengur þetta kvöld eða til kl. 21:00.

Myndlistarfélagið Gróska opnar haustsýninguna ,,Sól í myrkri“, þetta sama kvöld kl. 20:00 í sal Grósku á Garðatorgi 1 (gengið inn við hliðina á versluninni Momo upp á 2. hæð).  Sýningin er opin til kl. 22:30 um kvöldið.  Við opnunina ætlar Dúettinn Artemis að flytja tónlistaratriði.  Myndlistarsýningin verður svo áfram opin fram á sunnudag frá kl. 12-18. 

Opið hús verður í gallerí Jóhanns Tryggvasonar, á Garðatorgi 7, þar sem hann sýnir málverk.  

Lifandi Garðatorg

Ýmsar verslanir á Garðatorgi verða með opið hús og Mathús Garðabæjar verður með tilboð í tilefni kvöldsins.   Lionsmenn verða með veitingasölu um kvöldið fyrir tónleikagesti og borðum og stólum raðað upp á torgið.  Í bílakjallaranum á Garðatorgi er nóg af bílastæðum fyrir tónleikagesti sem ekki koma gangandi. Tónlistarveislan er á vegum menningar- og safnanefndar Garðabæjar og aðgangur er ókeypis.  Gott er að mæta tímanlega til að fá sæti, allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir.  Sjá einnig upplýsingar hér í viðburðadagatalinu á vef Garðabæjar.