3. nóv. 2017

Fjölbreytt þróunarverkefni kynnt á menntadegi leik- og grunnskóla

Kennarar og annað starfsfólk í leik- og grunnskólum Garðabæjar komu saman á sérstökum menntadegi sem var haldinn á starfsdegi skólanna föstudaginn 27. október sl. Alls voru flutt 24 erindi sem fjölluðu um verkefni sem hafa hlotið styrki úr þróunarsjóðum leik- og grunnskóla í Garðabæ. Einnig voru kynningar þar sem einstakir kennarar kynntu meistara- og doktorsverkefni sín.

  • Frá menntadegi í Garðabæ 2017
    Frá menntadegi í Garðabæ 2017

Kennarar og annað starfsfólk í leik- og grunnskólum Garðabæjar komu saman á sérstökum menntadegi sem var haldinn á starfsdegi skólanna föstudaginn 27. október sl. Margrét Harðardóttir, skólastjóri Hofsstaðaskóla, bauð alla velkomna á menntadaginn sem var haldinn í húsakynnum Hofsstaðaskóla.  Því næst tók Viktoría Jensdóttir, formaður leikskólanefndar, til máls og ávarpaði gesti við setningu menntadagsins sem nú var haldinn í annað sinn. Að því loknu tóku við fyrirlestrar í þremur lotum þar sem kennarar gátu valið úr fjölmörgum áhugaverðum erindum.  

Alls voru flutt 24 erindi sem fjölluðu um verkefni sem hafa hlotið styrki úr þróunarsjóðum leik- og grunnskóla í Garðabæ.  Einnig voru kynningar þar sem einstakir kennarar kynntu meistara- og doktorsverkefni sín.    

Meðal verkefna sem fjallað var um voru vísindakennsla í leikskóla, umhverfisverkefni af ýmsum toga, barnakóra- og tónlistarstarf, orðskýringarmyndbönd í stærðfræði, rafræn hjálpartæki til læsis, lesskilningsverkefnið Reading Plus, myndlist og mannkostamenntun,  heilsuæði með heilsufæði, slökun, prjónaverkefni, samskiptaverkefni, hönnunarhugsun, ýmis lestrar- og lesskilningsverkefni, tæki í forritunarkennslu, samræmdri íþróttakennslu auk fleiri verkefna.

Auk málstofanna voru settir upp kynningarbásar og veggspjöld þar sem fleiri verkefni sem hafa hlotið styrk úr þróunarsjóðum leik- og grunnskóla voru kynnt.  

Í lok menntadagsins flutti Sigríður Hulda Jónsdóttir, formaður skólanefndar Garðabæjar, ávarp þar sem hún þakkaði öllum kennurum og starfsfólki leik- og grunnskóla fyrir mikinn metnað og frábært starf við öll þau verkefni sem hafa hlotið styrki úr þróunarsjóðum leik- og grunnskóla í Garðabæ.