Menntadagur leik- og grunnskóla Garðabæjar
?Föstudaginn 27. október nk. er starfsdagur í leik- og grunnskólum Garðabæjar og eftir hádegi þann dag verður boðið upp á sérstakan menntadag fyrir kennara og starfsfólk á báðum skólastigum. Alls verða flutt 24 erindi sem fjalla um verkefni sem hafa hlotið styrki úr þróunarsjóðum leik- og grunnskóla í Garðabæ undanfarin ár
Föstudaginn 27. október nk. er starfsdagur í leik- og grunnskólum Garðabæjar og eftir hádegi þann dag verður boðið upp á sérstakan menntadag fyrir kennara og starfsfólk á báðum skólastigum. Þar gefst kennurum kostur á að velja úr og hlýða á fjölbreytt erindi í málstofum í húsnæði Hofsstaðaskóla.
Fjölbreytt verkefni kynnt í málstofum og kynningarbásum
Alls verða flutt 24 erindi sem fjalla um verkefni sem hafa hlotið styrki úr þróunarsjóðum leik- og grunnskóla í Garðabæ undanfarin ár en einnig verður kynning á meistara- og doktorsverkefnum einstakra kennara. Markmiðið með þróunarsjóðum leik- og grunnskóla í Garðabæ er að stuðla að framþróun og öflugra innra starfi skóla í Garðabæ.Meðal verkefna sem fjallað er um er vísindakennsla í leikskóla, umhverfisverkefni af ýmsum toga, barnakóra- og tónlistarstarf, orðskýringarmyndbönd í stærðfræði, rafræn hjálpartæki til læsis, lesskilningsverkefnið Reading Plus, myndlist og mannkostamenntun, heilsuæði með heilsufæði, slökun, prjónaverkefni, samskiptaverkefni, hönnunarhugsun, ýmis lestrar- og lesskilningsverkefni, tæki í forritunarkennslu, samræmdri íþróttakennslu auk fleiri verkefna.
Auk málstofanna verða settir upp kynningarbásar og veggspjöld þar sem fleiri verkefni sem hafa hlotið styrk úr þróunarsjóðum leik- og grunnskóla eru kynnt. Þetta er í annað sinn sem sérstakur menntadagur er haldinn í Garðabæ með þessum hætti og í fyrra var mikill áhugi meðal þátttakenda um kynningarnar.