17. okt. 2017

Leikskólinn og líðan barna - opinn fundur leikskólanefndar Garðabæjar

Leikskólanefnd Garðabæjar heldur opinn fund þar sem flutt verða áhugaverð erindi um svefn og heilsu og um félagsmótun, staðalmyndir og jafnrétti. Fundurinn verður haldinn miðvikudaginn 25. október kl. 17-19 í leikskólanum Ökrum, Línakri 2.
  • Séð yfir Garðabæ

Leikskólanefnd Garðabæjar heldur opinn fund þar sem flutt verða áhugaverð erindi um svefn og heilsu og um félagsmótun, staðalmyndir og jafnrétti. Fundurinn verður haldinn miðvikudaginn 25. október kl. 17-19 í leikskólanum Ökrum, Línakri 2. 

Viðburður á fésbókarsíðu Garðabæjar

Í leikskólum Garðabæjar fer fram fjölbreytt starf sem byggt er á ólíkum stefnum og kenningum um nám yngri barna.  Í skólastefnu sveitarfélagsins kemur fram að hverjum skóla er ætlað að marka sér sérstöðu, setja fram markmið og velja leiðir að markmiðum innan ramma aðalnámskrár og skólastefnu. Áhersla hefur verið lögð á að styðja við fjölbreytni og skólaþróun með úthlutun styrkja til leikskóla úr Þróunarsjóði leikskóla í Garðabæ.

Sú umgjörð sem sköpuð er í námsumhverfi leikskóla hefur mikla þýðingu m.a. fyrir vellíðan barnsins og sjálfsmynd þess.  Ein af grunnstoðum vellíðunar er hvíld en hún er fastur liður í dagskipulagi leikskólanna, þar er hægt á erli dagsins og börn ýmist sofa eða eiga rólega stund. Vangaveltur hafa verið um hvort að hvíld fái nægt rými í leikskólastarfinu miðað við vistunartíma barna. 
Jafnréttismenntun er í auknum mæli hluti af námi leikskólans. Lögð er áhersla á að skoða hvaða leiðir séu farsælar til að vinna gegn hvers kyns mismunun. Rannsóknir sýna að börn eru næm fyrir áhrifum umhverfisins og væntingar fólks til kynjanna mótast snemma.

Dagskrá fundarins

Á opna fundinum flytja þær Erla Björnsdóttir sálfræðingur og Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir verkefnastýra jafnréttismála á Skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar 15 mín erindi þar sem leitast verður við að svara eftirfarandi spurningum:
Er betri svefn grunnstoð heilsu?
Mega strákar gráta og stelpur slást?

Að loknum erindum verða umræður um málefnið í pallborði með frummælendum og Viktoríu Jensdóttur, formanni leikskólanefndar. 
Fundurinn er öllum opinn og er fólk hvatt til að koma og kynna sér málefni leikskólanna í Garðabæ.