11. okt. 2017

Garðabær opnar hraðhleðslustöð fyrir rafbíla á Garðatorgi

Garðabær opnaði nýja hraðhleðslustöð fyrir rafbíla í bílakjallaranum á Garðatorgi í miðbæ Garðabæjar miðvikudaginn 11. október. Garðabær er fyrsta sveitarfélagið sem semur við aðila á einkamarkaði um uppsetningu hraðhleðslustöðvar. Hraðhleðslustöðin er 50 kW stöð og með þeim hraðari á landinu.

  • Hraðhleðslustöð í bílakjallaranum á Garðatorgi
    Hraðhleðslustöð í bílakjallaranum á Garðatorgi

Garðabær opnaði nýja hraðhleðslustöð fyrir rafbíla í bílakjallaranum á Garðatorgi í miðbæ Garðabæjar miðvikudaginn 11. október. Garðabær er fyrsta sveitarfélagið sem semur við aðila á einkamarkaði um uppsetningu hraðhleðslustöðvar. Hraðhleðslustöðin er frá fyrirtækinu Hlöðu (Hleðsla ehf/GARO/ Efacec á Íslandi) og er 50 kW stöð og með þeim hraðari á landinu.

Við opnun hraðhleðslustöðvarinnar flutti Jóna Sæmundsdóttir, formaður umhverfisnefndar Garðabæjar, stutt ávarp og Gunnar Einarsson bæjarstjóri hlóð fyrsta rafbílinn sem heimsótti stöðina með góðri aðstoð nemenda frá leikskólanum Bæjarbóli.  Leikskólanemendurnir voru sérstakir heiðursgestir enda framtíðarnotendur rafbíla þar á ferð og höfðu mikinn áhuga á hvernig hleðslan færi fram.  Boðið var upp á tónlistaratriði með þeim Jóhönnu Guðrúnu Jónsdóttur söngkonu og Davíð Sigurgeirssyni á gítar þar sem börnin gátu einnig sungið með fyrir viðstadda.  Gestir á staðnum gátu einnig kynnt sér rafbíla og tvinnrafbíla frá fjölmörgum bílaumboðum sem voru til sýnis á staðnum. 

Fyrsta hraðhleðslustöðin í bílakjallara

Hin nýja hraðhleðslustöð er einnig fyrsta stöðin á Íslandi sem er staðsett í bílakjallara sem ýtir undir betra aðgengi sérstaklega yfir vetrartímann.  Á stöðinni er hægt að hlaða tvo bíla í einu, einn á hraðhleðslu (DC) og einn á hámarkshleðslu (AC).  Um 20-30 mínútur tekur að hlaða bíl í hraðhleðslu upp í 80-90%.  Hleðsla á stöðinni verður ókeypis út árið í boði Garðabæjar og Orkusölunnar en á næsta ári verður tekið gjald af hleðslu hvers bíls þar sem verður hægt að nota Rfid lykla og app til að greiða fyrir notkun. 

 

Styrkur frá Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu

Garðabær, ásamt fleiri sveitarfélögum og orkufyrirtækjum, fékk í lok síðasta árs styrk frá iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu til uppbyggingar á innviðum fyrir rafbíla.  Orkusjóður hafði umsjón með styrkumsóknunum og verkefnið er hluti af sóknaráætlun Íslands í loftslagsmálum. Verkefnið miðar að því að gert verði átak í að efla innviði fyrir rafbíla á landsvísu til að tryggja aðgengi sem flestra landsmanna að loftslagsvænum samgöngumáta.  Garðabær fékk styrk til að setja upp hraðhleðslustöð sem nú er komin upp á Garðatorgi.  

Vistvænt bæjarfélag - fleiri hleðslustöðvar

Í umhverfisstefnu Garðabæjar sem kom út fyrr á þessu ári er eitt af markmiðunum að Garðabær verði vistvænt bæjarfélag og umhverfið heilnæmt og aðlaðandi og ein leið til þess er að stuðla að notkun minna mengandi farartækja og vistvænna orkugjafa.  Garðabær stefnir einnig að því að setja upp fleiri hleðslustöðvar/staura í bænum, t.d. við almenningsstæði íþróttamiðstöðva.