6. okt. 2017

Félagsmiðstöðin Jónshús er 10 ára

Það eru 10 ár síðan Jónshús, félagsmiðstöð eldri borgara í Garðabæ, opnaði í húsakynnunum á jarðhæð á Strikinu 6 í Sjálandshverfi. Haldið var upp á afmælið á opnu húsi með glæsilegri afmælisdagskrá fimmtudaginn 5. október sl. Eldri borgarar sem og aðrir gestir fjölmenntu í afmælisveisluna þennan dag

  • Halfið upp á 10 ára afmæli Jónshúss í okróber 2017.
    Jónshús er hjarta starfsemi eldra fólks í Garðabæ

Það eru 10 ár síðan Jónshús, félagsmiðstöð eldri borgara í Garðabæ, opnaði í húsakynnunum á jarðhæð á Strikinu 6 í Sjálandshverfi. Haldið var upp á afmælið á opnu húsi með glæsilegri afmælisdagskrá fimmtudaginn 5. október sl.  Eldri borgarar sem og aðrir gestir fjölmenntu í afmælisveisluna þennan dag. Jazzband með söngkonunni Maríu Magnúsdóttur lék ljúfa tóna fyrir gesti og inn á milli voru flutt ávörp.  Ingibjörg Valgeirsdóttir framkvæmdastjóri öldrunar- og heimaþjónustu Garðabæjar bauð gesti velkomna og viðstaddir sungu saman afmælissönginn.  

Afmælisávörp

Gunnar Einarsson bæjarstjóri Garðabæjar flutti stutt ávarp og sló á létta strengi, því næst tók Jóna Hrönn Bolladóttir sóknarprestur við og fjallaði m.a. um þroskann sem fylgir því að eldast og hvað sé mikilvægt að huga að í þeim efnum.  Einnig mætti Hallgrímur Helgason rithöfundur í afmælisveisluna en hann er hugmyndasmiður nafngiftanna að hverfinu Sjálandi sem félagsmiðstöðin Jónshús er í. Hallgrímur sagði frá tilurð hugmyndarinnar og tilraun sinni til að brjóta upp hefbundin nöfn gatna en þó með því að sækja í Evrópskar hefðir þar sem hverfi eru oft nefnd eftir öðrum löndum og staðarháttum.  Stefanía Magnúsdóttir, formaður Félags eldri borgara í Garðabæ, steig einnig í pontu og sagði frá öflugri starfssemi félagsins og góðu samstarfi við starfsfólkið í Jónshúsi og færði þeim þakkir fyrir. 

Öflug starfssemi í Jónshúsi

Allt frá upphafi hefur verið öflug félagsstarfssemi í Jónshúsi en auk þess er einnig boðið upp á félags- og íþróttastarf fyrir eldri borgara á vegum bæjarfélagsins í Litla-Koti á Álftanesi, í Kirkjuhvoli í Vídalínskirkju, í íþróttasal og sundlaug Sjálandsskóla og í öðrum íþróttamannvirkjum.  

Jónshús er til húsa að Strikinu 6 í Sjálandi og þar er opið alla virka daga frá kl. 09:30-16:00.