6. okt. 2017

Foreldrar og forráðamenn fjölmenntu á upplýsingafund um snjalltæki, svefn og forvarnir

Í tilefni af forvarnaviku í grunn- og leikskólum Garðabæjar var haldinn fundur fyrir foreldra fimmtudagskvöldið 5. október. Rúmlega 250 manns mættu á fundinn og hlustuðu á fyrirlesara kvöldsins, þau Björn Hjálmarsson barna- og unglingageðlækni og Örnu Skúladóttur barnahjúkrunarfræðing.
  • Séð yfir Garðabæ

Í tilefni af forvarnaviku í grunn- og leikskólum Garðabæjar var haldinn fundur fyrir foreldra fimmtudagskvöldið 5. október. Rúmlega 250 manns mættu á fundinn og hlustuðu á fyrirlesara kvöldsins, þau Björn Hjálmarsson barna- og unglingageðlækni og Örnu Skúladóttur barnahjúkrunarfræðing og sérfræðing í svefnvanda barna.

Erindi Björns fjallaði um þær miklu breytingar sem orðið hafa hjá börnum með tilkomu snjalltæka og annarrar nýrrar tækni og hvaða mögulegu áhrif mikil notkun tækjanna getur haft á þroska og líðan barna.  Hann vitnaði í rannsóknir erlendra sérfræðinga sem benda til þess að of mikill daglegur skjátími hafi slæm áhrif á líðan barna og að það séu einnig merki um líkamleg áhrif á börnin s.s. verkir í stoðkerfi, aukin örvun í heilaberki en minni virkni í framheila. Hann hvatti til þess að foreldrar fylgdust vel með þeim tíma sem börnin verja í tækjunum og að tíminn sé minnkaður ef merki um vanlíðan koma fram.

Arna fór yfir góðar svefnvenjur og hversu mikilvægur svefn sé fyrir uppvöxt og þroska barna. Hún ræddi einnig mikilvægi reglulegs svefntíma og að það sé ró í kringum svefntíma barna.  Arna mælir með því að börn hætti að horfa á skjái, hvort sem það eru símar, tölvur, sjónvarp eða annað, amk 30 mínútum til klukkustund áður en barnið fer að sofa. Ástæða þess sé að ljósið frá skjánum trufli eðlilega melatónín framleiðslu líkamans og hindri þar með að barnið geti sofnað fljótt og vel.

Fundurinn var haldinn í Sjálandsskóla og var hann í samvinnu Grunnstoðar, grunn- og leikskóla Garðabæjar sem og mannréttinda- og forvarnanefndar Garðabæjar.