Gengið að Vífilsstaðaseli í Heiðmörk
Miðvikudaginn 27. september var haldið í sögugöngu að Vífilsstaðaseli í Selholti í Heiðmörk undir leiðsögn Ragnheiðar Traustdóttur fornleifafræðings. Lagt var af stað frá bílaplani við Heiðmerkurvegið og gengið þaðan með hlíðinni upp veginn að selinu. Göngumenn fengu ágætisveður á leiðinni þótt skyggnið hafi ekki verið upp á sitt besta þegar komið var upp hlíðina þar sem Vífilsstaðaselið er.
Vífilsstaðasel er austan við línuveg í skjólgóðum og grasi grónum hvammi, sunnan þess er Selholt, Selás suðaustan og Selhóll þar vestur af með Selkvíunum. Í mýrarkorni er svo Selbrunnurinn og þar vestur af liggur Selstígurinn að Vífilstöðum. Þarna eru leifar af nýrri og eldri selstöðum og er því að finna mörg hús á svæðinu frá mismunandi tímum. Elstu selin eru útflött og erfitt að átta sig á húsaskipan en yngsta selið er vel greinilegt og eru fimm rými í þeim og öll í röð. Leifar af tveimur stekkjum er finna rétt ofan við selin.
Gangan var í boði Garðabæjar en bærinn tók þátt í verkefni Ferðafélags Íslands í september og bauð upp á lýðheilsugöngur alla miðvikudaga í september. Þessi síðasta ganga var vel sótt eins og fyrri göngurnar í Garðabæ í september. Jafnframt voru göngurnar áframhald vinsælla fræðslu- og sögugangna Garðabæjar á þessu ári.