Fallegt haustveður í lýðheilsugöngu frá Ásgarði
Það var fallegt veður þegar haldið var af stað í lýðheilsugöngu undir þemanu vinátta frá Ásgarði miðvikudaginn 13. september sl. Þátttakendur voru á öllum aldri, sá yngsti 10 ára og elsti 80+. Það var Svandís Ríkharðsdóttir íþróttakennari sem stýrði göngunni en á leiðinni voru m.a. gerðar öndunaræfingar og léttar teygjur.
Saga merkra húsa á Álftanesi
Miðvikudaginn 20. september kl. 18:00 verður haldið í sögugöngu um Álftanesið undir leiðsögn Péturs Ármannssonar arkitekts sem segir frá sögu merkra húsa á nesinu. Mæting er við húsið Bjarnastaði sem er staðsett við gatnamót Bakkavegar og Bjarnastaðavarar. Gengið verður stuttan hring um suðurnesið um klukkutíma. Létt og þægileg ganga fyrir alla áhugasama.
Viðburður á fésbókarsíðu Garðabæjar
Náttúruganga í Heiðmörk
Síðasta gangan í september verður miðvikudaginn 27. september en þá verður haldið í göngu undir þemanu náttúra í Heiðmörk þar sem gengið verður að Selholti undir leiðsögn Ragnheiðar Traustadóttur fornleifafræðings. Nánari upplýsingar um þá göngu verða settar inn í viðburðadagatalið hér á vefnum.Lýðheilsugöngur FÍ í september
Göngurnar eru hluti af verkefni Ferðafélags Íslands um lýðheilsugöngur alla miðvikudaga í september og um leið áframhald sögu- og fræðslugangna sem hafa verið í boði á þessu ári og undanförnu ári í Garðabæ og hafa verið vel sóttar af almenningi.
Allir eru velkomnir í göngurnar en tilgangurinn með verkefninu er að hvetja fólk á öllum aldri til útivistar og hreyfingar í góðum félagsskap og efla þar með heilsu sína og lífsgæði.
Allar upplýsingar um göngustaði og gönguleiðir annars staðar á landinu má finna á vef verkefnisins www.fi.is/lydheilsa.