Taktu með þér vin í göngu!
Það var góð þátttaka í fyrstu lýðheilsugöngunni í Garðabæ í september. Haldið var í hressingargöngu um Sjálandshverfið miðvkudaginn 6. september sl. undir leiðsögn Antons Kára og Hildar Kötlu íþróttafræðinema. Gengið var í um klukkustund og göngugarpar gátu farið í skemmtilegar æfingar á leiðinni.
Vinátta – gengið frá Ásgarði 13. september kl. 18 – taktu með þér vin!
Vinátta er þema næstu göngu sem haldið verður í miðvikudaginn 13. september nk. kl. 18:00. Gengið verður frá íþróttamiðstöðinni Ásgarði um klukkutíma hring, létt og þægileg ganga fyrir alla aldurshópa. Þátttakendur í göngunni eru hvattir til að taka með sér vin í gönguna og gjarnan að reyna draga einhvern með sér sem fer að öllu jöfnu ekki oft í göngur. Allir eru velkomnir í gönguna en tilgangurinn með verkefninu er að hvetja fólk á öllum aldri til útivistar og hreyfingar í góðum félagsskap og efla þar með heilsu sína og lífsgæði.
Sögu- og náttúrugöngur síðari hluta september
Miðvikudaginn 20. september kl. 18 verður farið í göngu undir þemanu saga. Pétur Ármansson leiðir þá göngu frá Bjarnastöðum þar sem sagt verður frá sögu merkra húsa á Álftanesi. Síðasta gangan í september verður miðvikudaginn 27. september en þá verður haldið í göngu undir þemanu náttúra í Heiðmörk þar sem gengið verður að Selholti undir leiðsögn Ragnheiðar Traustadóttur fornleifafræðings.
Göngurnar eru um leið áframhald sögu- og fræðslugangna sem hafa verið í boði á þessu ári og undanförnu ári í Garðabæ og hafa verið vel sóttar af almenningi.
Allar upplýsingar um göngustaði og gönguleiðir annars staðar á landinu má finna á vef verkefnisins www.fi.is/lydheilsa.