Lýðheilsugöngur í september
Garðabær tekur þátt í verkefni Ferðafélags Íslands um lýðheilsugöngur í september. Alla miðvikudaga í september getur almenningur tekið þátt í lýðheilsugöngum um allt land. Vellíðan er þema fyrstu göngunnar þar sem farið verður í hressingargöngu frá íþróttamiðstöðinni í Sjálandsskóla meðfram strandlengjunni við Arnarnesvog miðvikudaginn 6. september kl. 18:00.
-
Lagt af stað í lýðheilsugöngu frá Sjálandsskóla í september 2017
Garðabær tekur þátt í verkefni Ferðafélags Íslands um lýðheilsugöngur í september. Alla miðvikudaga í september getur almenningur tekið þátt í lýðheilsugöngum um allt land. Göngurnar eru hluti af afmælisdagskrá FÍ en félagið fagnar 90 ára afmæli á árinu. Göngurnar hefjast kl. 18:00 alla miðvikudaga vítt og breitt um landið og er fyrsta gangan 6. september. Um er að ræða fjölskylduvænar göngur sem taka u.þ.b. 60-90 mín. Tilgangurinn með verkefninu er að hvetja fólk á öllum aldri til útivistar og hreyfingar í góðum félagsskap og efla þar með heilsu sína og lífsgæði.
Göngur í Garðabæ
Boðið verður upp á göngur miðvikudagana 6., 13., 20. og 27. september kl. 18:00. Göngurnar eru um leið áframhald sögu- og fræðslugangna sem hafa verið í boði á þessu ári og undanförnu ári í Garðabæ og hafa verið vel sóttar af almenningi. Göngurnar verða kynntar í viðburðadagatali hér á vefnum og á fésbókarsíðu bæjarins.
Garðbæingar eru hvattir til að taka þátt í göngunum þar sem boðið verður upp á fróðleik, auðvelda hreyfingu og umfram allt góðan félagsskap göngumanna.
Hressingarganga miðvikudaginn 6. september kl. 18:00 - þema Vellíðan
Vellíðan er þema fyrstu göngunnar þar sem farið verður í hressingargöngu frá íþróttamiðstöðinni í Sjálandsskóla meðfram strandlengjunni við Arnarnesvog miðvikudaginn 6. september kl. 18:00. Létt og þægileg ganga til að auka á vellíðan í upphafi hausts. Göngustjórar verða þau Anton Kári og Hildur Katla, BS nemar í íþróttafræði á 3ja ári.
Miðvikudaginn 13. september kl. 18 verður farið í göngu undir þemanu vinátta og gengið frá Ásgarði.
Miðvikudaginn 20. september kl. 18 verður farið í göngu undir þemanu saga. Pétur Ármansson leiðir þá göngu frá Bjarnastöðum þar sem sagt verður frá sögu merkra húsa á Álftanesi.
Miðvikudaginn 27. september kl. 18 verður haldið í göngu undir þemanu náttúra í Heiðmörk þar sem gengið verður að Selholti undir leiðsögn Ragnheiðar Traustadóttur fornleifafræðings.
Allar upplýsingar um göngustaði og gönguleiðir annars staðar á landinu má finna á vef verkefnisins www.fi.is/lydheilsa. Þar gefst almenningi einnig kostur á að skrá sig í lukkupott sem dregið verður úr í október og geta heppnir göngugarpar hreppt glæsilega vinninga.