Þriðjudagsklassík hefst á ný
Tónleikaröðin Þriðjudagsklassík í Garðabæ er að hefja sitt fimmta starfsár. Að þessu sinni verða þrennir tónleikar frá september til nóvember, ætíð fyrsta þriðjudagskvöld í mánuði í sal Tónlistarskóla Garðabæjar við Kirkjulund. Miðasala er á staðnum fyrir hverja tónleika og aðgangseyrir er 1500 kr. Menningar- og safnanefnd Garðabæjar stendur að tónleikaröðinni en listrænn stjórnandi frá upphafi er Ingibjörg Guðjónsdóttir, söngkona og kórstjóri.
Fyrstu tónleikarnir þriðjudaginn 5. september kl. 20
Það eru djasstónlistarmennirnir Sigurður Flosason, saxofónleikari og Kjartan Valdemarsson, píanóleikari sem ríða á vaðið og koma fram á fyrstu tónleikum haustsins, þann 5. september nk. Tónleikar þeirra félaga bera yfirskriftina Schubert í öðru ljósi. Þar flytja þeir dagskrá af sönglögum eftir eitt ástsælasta tónskáld heims, Franz Schubert, í eigin útsetningum. Spuni kemur talsvert við sögu og hin rómantíska og ljóðræna tónlist Schuberts fær á sig nýja og óvæntan blæ. Mörg af þekktustu og ástsælustu lögum meistarans verða tekin til kostanna af þeim félögum og útkoman verður í senn spennandi og heillandi.
Tónleikar í október og nóvember
Þriðjudagskvöldið 3. október er það Hið íslenska gítartríó sem býður tónleikagestum á suðrænar slóðir með tónlist spænska og suður-amerískra tónskálda.
Á þriðju og síðustu tónleikum Þriðjudagsklassíkur, þriðjudaginn 7. nóvember spilar Kammerhópurinn Camerarctica verk eftir Glinka, Weber og Mozart en yfirskrift tónleikana er Léttleiki og dramatík.
Camerarctica hópurinn var stofnaður árið 1992 og fagnar því 25 ára afmæli um þessar mundir.
Þriðjudagsklassík á facebook