1. sep. 2017

Fjölskyldudagskrá og síðasta sunnudagsopnun í Króki

Bærinn Krókur á Garðaholti hefur verið opinn alla sunnudaga í sumar frá júní til ágúst. Sunnudaginn 3. september verður sérstök fjölskyldudagskrá í Króki í Garðahverfi við Garðaholt í Garðabæ.
  • Séð yfir Garðabæ

Bærinn Krókur á Garðaholti hefur verið opinn alla sunnudaga í sumar frá júní til ágúst. Sunnudaginn 3. september verður sérstök fjölskyldudagskrá í Króki í Garðahverfi við Garðaholt í Garðabæ. Rúna K. Tetzschner safnvörður í Króki verður með leiðsögn fyrir börn og fer með þeim í ratleik um safnið. Krókur er næstum því 100 ára gamall bær sem er varðveittur sem safn og öll húsgögnin og hlutirnir sem þar eru til sýnis voru áður í eigu fólksins sem síðast bjó á bænum. Skammt frá Króki er einnig ýmislegt annað sem gaman getur verið að skoða og ef veður leyfir verður farið í minjagöngu þar sem börnin læra að þekkja tóftir og aðrar minjar í landslaginu.

Að venju verður opið kl. 13-17 í Króki en leiðsögnin/minjagangan hefst kl. 14. Dagskráin er einkum miðuð við yngstu börnin (4-9 ára), en allir eru að sjálfsögðu velkomnir og aðgangur er ókeypis. Dyrum Króks verður læst á meðan minjar í Garðahverfi eru skoðaðar en séu einhverjir seinir fyrir má elta gönguna út frá korti á hurðinni.

Þetta er jafnframt síðasti sunnudagurinn sem opið er í Króki í sumar þannig að nú eru síðustu forvöð að skoða safnið að þessu sinni.

Krókur á facebook