Nemendur í Garðabæ þurfa ekki að kaupa námsgögn í vetur
Bæjarráð Garðabæjar samþykkti nýverið að greiða fyrir þau námsgögn sem nemendur í grunnskólum bæjarins þurfa að nota í starfi skólanna.
-
Mynd frá 1. bekk í Flataskóla veturinn 2015-2016
Bæjarráð Garðabæjar samþykkti nýverið að greiða fyrir þau námsgögn sem nemendur í grunnskólum bæjarins nota í starfi skólanna. Heildarkostnaður verður um 12,5 milljónir króna. Nemendur munu fá öll helstu námsgögn afhent í skólunum, svo sem ritföng, möppur og stílabækur, reglustrikur, lím, skæri og liti. Nemendur verða þó sjálfir að koma með sinn eigin íþróttafatnað, heyrnatól og að tryggja að þeir eigi ritföng heima við til að geta sinnt heimavinnu. Nemendur á unglingastigi (8.-10. bekk) þurfa einnig að eiga vasareikna fyrir sig.
Markmið þessa er að koma til móts við barnafólk í Garðabæ og tryggja öllum börnum námsgögn. Einnig mun framkvæmdin draga úr sóun þar sem ýmis gögn verða samnýtt.
Frekari upplýsingar verður að finna á heimasíðum grunnskólanna í Garðabæ.