10. ágú. 2017

Skemmtilegt sumar á leikskólanum Bæjarbóli

Leikskólabörn á Bæjarbóli hafa notið sumarsins við leik og útiveru. Einnig hefur verið unnið að breytingum og viðhaldi á leikskólanum í sumar.
  • Séð yfir Garðabæ

Börnin á leikskólanum Bæjarbóli hafa notið sumarsins við leik og í fjölbreyttum verkefnum. Börnin eru mikið útivið og njóta þess sérstaklega þegar veðrið er gott eins og verið hefur síðustu vikur. Gönguferðir og vettvangsferðir eru vinsælar, grænmeti hefur verið ræktað í skólagörðunum, tjaldað og farið í leiki á leikskólalóðinni.  Eldri börnin fóru í borgarferð með strætó sem var mikið ævintýri og léku sér á Klambratúni.

Leikskólar í Garðabæ loka ekki á sumrin

Sumarstarf leikskólans, líkt og annarra leikskóla í Garðabæ, er nokkuð frábrugðið vetrarstarfinu en allt er gert til þess að börnunum líði sem allra best og njóti sumarsins í leikskólanum. Leikskólar í Garðabæ loka ekki yfir sumartímann og hafa foreldrar val um það hvenær börnin taka sitt sumarfrí, sem verður þó að vera að lágmarki 4 vikur.  Á sumrin eru færri börn á deildunum og eru þær því oft sameinaðar öðrum deildum og sumarstarfsfólk vinnur með börnunum samhliða föstu starfsfólki.

Viðhaldi sinnt

Sumarið er einnig nýtt til endurbóta á leikskólum bæjarins og var Bæjarból engin undantekning.  Stór hluti skólans var málaður og deildir þar sem yngstu börnin dvelja endurnýjaðar, sem dæmi var settur hiti í gólfin svo þau væru þægilegri fyrir börnin.