9. okt. 2014

Útikennsla við Vífilsstaðavatn

Bjarni Jónsson fiskifræðingur fræddi nemendur úr 7. bekk um lífríki Vífilsstaðavatns
  • Séð yfir Garðabæ

Fyrr í vikunni bauð umhverfisnefnd Garðabæjar nemendum úr 7. bekkjum Flataskóla og Hofsstaðaskóla upp á útikennslu við Vífilsstaðavatn.  Nefndin býður börnum úr öllum skólum Garðabæjar upp á þessa kennslu. Það var Bjarni Jónsson fiskifræðingur sem sá um kennsluna og honum til aðstoðar voru tveir starfsmenn frá garðyrkjudeild Garðabæjar.   Bjarni hefur síðastliðin 15 ár komið á vegum umhverfisnefndar til að kenna börnum í Garðabæ um lífríki Vífilsstaðavatns.  Hann hefur með sér gildrur, net og annan þann búnað sem til þarf og sýnir börnunum það sem veiðist, svo sem fiska og smádýr sem lifa, hrygna eða stoppa um tíma á sínu vaxtarskeiði í vatninu.

Börnin komu hjólandi að Vífilsstaðavatni og skiptu kennarar bekkjardeildanna hópum sínum í smærri hópa svo allir gætu tekið þátt, og einhverjir skoðuðu einnig umhverfið í fylgd Bjarna. Auðheyrt var að börnin komu vel undirbúin í útikennsluna er þau svöruðu spurningum Bjarna.