Gaman í skólagörðunum
Starfssemi skólagarðanna í Silfurtúni hefur gengið vel í sumar og aðsóknin er með svipuðu móti og undanfarin ár. Skólagarðarnir eru ætlaðir börnum 6-13 ára og er leiðbeinandi á staðnum alla virka daga frá kl. 8:00-16:00 börnum til aðstoðar við ræktunina. Starf skólagarðanna hófst 1. júní sl. með innritun og vali barna á garði. Við skráningu fengu börnin upplýsingar um mikilvægi þess að hugsa vel um garðinn sinn og í hverju sú vinna væri fólgin. Viku síðar var eldri borgurum boðið að kaupa sér garð.
Eftir að börnin höfðu lokið undirbúningi garðanna fékk hvert barn úthlutað útsæðis kartöflum og kálplöntum til að rækta. Einnig voru sumarblóm gróðursett í hvern garð. Trefjadúkur er settur yfir beðin til þess að veita skjól og auka hitastig, halda raka að plöntunum, vernda gegn kálflugu og öðrum sníkjudýrum. Áætlað er að halda uppskeruhátíð skólagarðanna í byrjun september til þess að gefa kartöflunum og grænmetinu lengri vaxtartíma.