25. júl. 2017

Opið hús í Króki á Garðaholti á sunnudögum í sumar

Krókur á Garðaholti er lítill bárujárnsklæddur burstabær sem var endurbyggður úr torfbæ árið 1923. Krókur er opinn alla sunnudaga í júní, júlí og ágúst frá kl. 13-17 og aðgangur er ókeypis.
  • Séð yfir Garðabæ

Krókur á Garðaholti er lítill bárujárnsklæddur burstabær sem var endurbyggður úr torfbæ árið 1923. Krókur er opinn alla sunnudaga í júní, júlí og ágúst frá kl. 13-17 og aðgangur er ókeypis. 

Alþýðuheimili varðveitt

Í Króki eru varðveitt gömul húsgögn og munir sem voru í eigu hjónanna Þorbjargar Stefaníu Guðjónsdóttur og Vilmundar Gíslasonar. Þorbjörg flutti í Krók vorið 1934 og bjó í Króki til ársins 1985.  Afkomendur Þorbjargar og Vilmundar gáfu Garðabæ húsin í Króki með því skilyrði að bærinn yrði endurbyggður.  

Undanfarin ár hefur verið opið að sumri til í Króki fyrir almenning og skólahópar jafnt sem aðrir hópar hafa heimsótt bæinn yfir vetrartímann.  Bílastæði eru við samkomuhúsið á Garðaholti en einnig er tilvalið að fara í göngu- eða hjólatúr um Garðaholtið og koma við í Króki í leiðinni. 

Garðahverfi - verndarsvæði í byggð

Bærinn Krókur er staðsettur rétt hjá samkomuhúsinu á Garðaholti og stutt frá Garðakirkju, nánar tiltekið á gatnamótum Garðavegar og Garðaholtsvegar og telst vera hluti af Garðahverfi.  Bæjarstjórn Garðabæjar samþykkti í vor að leggja fram tillögu um að Garðahverfi verði gert að verndarsvæði í byggð.  Tillagan fjallar um verndargildi byggðarinnar í Garðahverfi sem hefur, þrátt fyrir legu sína á næstum miðju höfuðborgarsvæðisins, haldist óbreytt um langt skeið.  Byggðamynstrið og sýnilegar minjar um eldri byggð og landnýtingu bera þannig vitni um gamla tíma.  Tillagan var í kynningu í vor og athugasemdafrestur var fram í byrjun júní á þessu ári. 
Á vefnum www.gardahverfi.is er hægt að nálgast margvíslegar upplýsingar um Garðahverfi.

Krókur á facebook

Allir eru velkomnir að heimsækja bæinn Krók í sumar og á fésbókarsíðu Króks má sjá myndir og lesa ýmsa fróðleiksmola um bæinn og nánasta umhverfi.