Leikskólinn Krakkakot flaggar Grænfánanum í fimmta sinn
Leikskólinn Krakkakot fagnaði því á dögunum að hafa náð þeim árangri að vinna að umhverfismennt í 10 ár og flagga þar með Grænfánanum í fimmta sinn.
Í vetur hefur leikskólinn unnið með þemað Lýðheilsu og beint sjónum sínum að hreyfingu, næringu og hugarró með öndun, slökun og hugleiðslu.
,,Við erum ákaflega stolt yfir því að hafa náð þessum árangri. Í vor settum við punktinn yfir i-ið með því að vera með markvissa hreyfistund á hverjum degi sem endaði með okkar árlegu „Krakkakotsleikum“ í lok júní en þá setjum við upp þrautabraut á leikskólalóðinni og allir taka þátt í að fara brautina og fá að launum verðlaunapening sem börnin hafa sjálf búið til úr verðlausu efni" sagði Hjördís G. Ólafsdóttir leikskólastjóri Krakkakots.
Á vef Krakkakots má sjá frétt um Krakkakotsleikanna og afhendingu Grænfánans 30. júní sl. Þar eru einnig fleiri skemmtilegar myndir frá deginum.
Skólar á grænni grein á Íslandi
Skólar á grænni grein er alþjóðlegt verkefni sem hefur það að markmiði að auka umhverfismennt og styrkja menntun til sjálfbærni í skólum. Skólar ganga í gegnum sjö skref í átt að aukinni umhverfisvitund og sjálfbærni. Þegar því marki er náð fá skólarnir að flagga Grænfánanum til tveggja ára og fæst sú viðurkenning endurnýjuð ef skólarnir halda áfram góðu starfi.
Á vef Landverndar er hægt að lesa nánar um grænfánaverkefnið.