23. jún. 2017

Jónsmessugleðin var vel sótt

Árleg Jónsmessugleði Grósku var haldin fimmtudagskvöldið 22. júní sl. á göngustígnum við strandlengjuna í Sjálandshverfinu. Að venju var myndlistin í aðalhlutverki og um 40 myndlistarmenn sýndu verk sín utandyra þetta kvöld

  • Frá Jónsmessugleði á Sjálandi 2017
    Frá Jónsmessugleði á Sjálandi 2017

Árleg Jónsmessugleði Grósku var haldin fimmtudagskvöldið 22. júní sl. á göngustígnum við strandlengjuna í Sjálandshverfinu.  Að venju var myndlistin í aðalhlutverki og um 40 myndlistarmenn sýndu verk sín utandyra þetta kvöld og auk félaga í Grósku, sem er félag myndlistarmanna í Garðabæ, tóku gestalistamenn frá Myndlistarfélagi Kópavogs, Litku í Reykjavík, Myndlistarfélagi Vestmannaeyja og frá Akranesi þátt í sýningunni. 

Veðrið var mjög gott, hlýtt og logn og sólin lét sjá sig um stund.  Fjölmargir gestir á öllum aldri lögðu leið sína í Sjálandið þetta kvöld og nutu listarinnar sem boðið var upp á. 

Jónsmessugleði var haldin fyrst árið 2009 og er nú haldin í níunda sinn.  Jónsmessugleðin hefur vaxið og dafnað og Garðbæingar og aðrir góðir gestir hafa fjölmennt á hátíðina í Sjálandið.  Einkunnarorð hátíðarinnar frá upphafi hafa verið ,,Gefum, gleðjum og njótum" og öllum sem lögðu hönd á plóg er þakkað fyrir þátttöku sína í þessari hátíð Grósku sem er haldin í samstarfi við Garðabæ.

Í ár var þema hátíðarinns ,,En hvað það var skrýtið" og verk sem voru til sýnis voru innblásin af þemanu. Eliza Reid forsetafrú setti hátíðina og því næst tóku við fjölbreytt atriði auk myndlistarinnar.  Meðal þeirra sem komu fram voru Leikfélagið Draumar, Jóhann Björn Ævarsson, Rebekka Sif og Daníel Jones, Tónlistarband frá Tónlistarskóla Garðabæjar og Jón Jónsson, tónlistarmaður.

Hópur ungmenna í skapandi sumarstörfum hjá Garðabæ tóku þátt með fjölbreyttum verkum og einnig tóku ungmenni úr umhverfishópum Garðabæjar þátt í undirbúningi Jónsmessugleðinnar og voru búin að vinna hörðum höndum að því að gera svæðið klárt fyrir kvöldið auk þess sem hópur aðstoðaði við ýmsa vinnu um kvöldið.

Á fésbókarsíðu Garðabæjar má sjá fleiri myndir frá kvöldinu.