22. jún. 2017

Kvennahlaupið var haldið í 28. sinn

Sjóvá Kvennahlaup ÍSÍ fór fram í tuttugasta og áttunda sinn sunnudaginn 18. júní hér í Garðabæ. Um 1500 konur tóku þátt í hlaupinu að þessu sinni. Úthlutun úr 19. júní sjóði Garðabæjar fór að þessu sinni fram við hátíðlega athöfn á Garðatorgi um leið og Kvennahlaupið fór fram.
  • Séð yfir Garðabæ

Sjóvá Kvennahlaup ÍSÍ fór fram í tuttugasta og áttunda sinn sunnudaginn 18. júní hér í Garðabæ. Um 1500 konur tóku þátt í hlaupinu að þessu sinni. Boðið var upp á þrjár vegalengdir og nýjung í ár voru 6 km náttúruhlaup og tímatöku í 10 km hlaupi fyrir þær konur sem það vildu.
Frú Eliza Reid forsetafrú ræsti hlaupara sem virtust þrátt fyrir töluverða rigningu skemmta sér en færa þurfti hluta af skemmtidagskránni inn á Garðatorg. Elsti þátttakandinn í ár, Sólveig Alda Pétursdóttir fædd árið 1925, var heiðruð. Einnig var ákveðið að verðlauna yngsta þátttakandan í ár en það var 3 vikna óskírð stúlka í barnavagni sem tók þátt með móður sinni Emelíu Sól.

Á fésbókarsíðu Kvennahlaupsins í Garðabæ má sjá fleiri myndir úr hlaupinu sl. laugardag.  

Úthlutað úr 19. júní sjóði Garðabæjar

Úthlutun úr 19. júní sjóði Garðabæjar fór að þessu sinni fram við hátíðlega athöfn á Garðatorgi um leið og Kvennahlaupið fór fram. 19. júní sjóður var stofnaður í tengslum við Kvennahlaup ÍSÍ í Garðabæ og tilgangur sjóðsins er að styrkja og efla íþróttir kvenna í Garðabæ með því að veita fé til uppbyggingar á því sviði.  Það er íþrótta- og tómstundaráð Garðabæjar sem hefur umsjón með úthlutun úr 19. júní sjóðnum

Að þessu sinni fékk einn einstaklingur og þrjú félög styrk úr sjóðnum.
Freydís Halla Einarsdóttir skíðakona hlaut styrk vegna undirbúnings fyrir þátttöku á Ólympíuleikunum 2018 og þeirri baráttu að ávinna sér þátttökurétt þar. 
Körfuknattleiksdeild Stjörnunnar fékk styrk til að efla þátttöku ungra stúlkna í körfuknattleik. 
GKG fékk styrk til að efla þátttöku kvenna í golfi með ,,opnum golfdegi".
Blakdeild Stjörnunnar fékk styrk til að efla þátttöku kvenna í blaki með því að bjóða upp á byrjendanámskeið í blaki.