Vel heppnaður þjóðhátíðardagur
Fjölbreytt dagskrá var í boði á 17. júní hátíðarhöldunum í Garðabæ sl. laugardag.
Fleiri myndir má sjá í myndaalbúmi á fésbókarsíðu Garðabæjar.
Um morguninn hófst dagskráin með hinu árlega 17. júnímóti Golfklúbbs Álftaness. Boðið var upp á ókeypis aðgang í sundlaugina á Álftanesi og einnig var ókeypis veiði allan daginn í Vífilsstaðavatni. Garðbæingar létu ekki rigningu á sig fá en sólin lét þó sjá sig á milli skúra á laugardaginn.
Hátíðardagskrá á Álftanesi
Hátíðardagskráin á Álftanesi hófst með helgistund í safnaðarheimilinu að Brekkuskógum kl. 10 að morgni og þaðan var gengið í skrúðgöngu að hátíðarsvæði við Álftaneslaug. Á hátíðarsviði var boðið upp á skemmtidagskrá þar sem fram komu m.a. Skoppa og Skrítla og ungar stúlkur í skapandi sumarstarfi Garðabæjar sem skipa dúettinn Artemis. Jafnframt gátu ungir gestir skemmt sér í hoppukastölum og keypt söluvarning hjá skátunum. Síðar um daginn var Kvenfélag Álftaness með hið árlega kaffihlaðborð í hátíðarsalnum á Álftanesi.
Hátíðardagskrá við Ásgarð
Í Vídalínskirkju hófst hátíðarstund kl. 13:15 þar sem nýstúdent flutti ávarp. Að lokinni hátíðarstund í kirkjunni var haldið af stað í skrúðgöngu að hátíðarsvæðinu við Garðaskóla og Ásgarð. Þar var boðið upp á dagskrá á hátíðarsviði utandyra við Ásgarða og meðal þeirra sem fram komu voru Artemis, Villi og Sveppi, Skoppa og Skrítla, Svala og Friðrik Dór.
Inni í Ásgarði var boðið upp á fimleikasýningu frá fimleikadeild Stjörnunnar. Á hátíðarsvæðinu var hægt að leika sér í ýmsum tækjum, þar voru hoppukastalar, stultur og leikföng. Hið vinsæla kaffihlaðborð Kvenfélags Garðabæjar var að þessu sinni haldið í Flataskóla.
Dagskráin var í umsjón Skátafélagsins Vífils með aðstoð Skátafélagsins Svana að morgni.
Hátíðartónleikar að kvöldi í Kirkjuhvoli
Um kvöldið voru haldnir hátíðartónleikar í safnaðarheimili Vídalínskirkju, Kirkjuhvoli. Hljómsveitin Salon Islandus steig þar á svið og gestasöngvarar með hljómsveitinni í ár voru þau Lilja Guðmundsdóttir sópran og Elmar Gilbertsson tenór. Á efnisskránni voru vinsæl Vínarlög, aríur, dúettar, valsar og önnur létt tónlist. Fullt var út úr dyrum á tónleikunum og tónleikagestir afar ánægðir með kvöldið og tónlistarflytjendur voru klappaðir upp til að flytja aukalag að loknum tónleikum.