16. jún. 2017

Niðurstöður úr framkvæmdasamkeppni um deiliskipulag fyrir miðsvæði Álftaness

Bæjarstjórn Garðabæjar ákvað síðastliðið haust að efna til framkvæmdasamkeppni um deiliskipulag fyrir miðsvæði Álftaness í samstarfi við Arkitektafélag Íslands. Niðurstöður liggja nú fyrir og voru þær kynntar fimmtudaginn 15. júní 2017. Alls bárust 4 tillögur og voru 3 þeirra verðlaunaðar. Í fyrsta sæti var tillaga Andersen & Sigurdsson Arkitekter

  • Frá íbúafundi um deiliskipulag miðsvæðis á Álftanesi
    Frá íbúafundi um deiliskipulag miðsvæðis á Álftanesi

Bæjarstjórn Garðabæjar ákvað síðastliðið haust að efna til framkvæmdasamkeppni um deiliskipulag fyrir miðsvæði Álftaness í samstarfi við Arkitektafélag Íslands. Ástæða þess að ákveðið var að ráðast í gerð nýrra deiliskipulagsáætlana fyrir svæðið var sú að við sameiningu sveitarfélaganna Álftaness og Garðabæjar breyttust margar forsendur þess deiliskipulags sem í gildi er.  Að auki var ákveðið að stækka deiliskipulagssvæðið þannig að það nær yfir stærra samhangandi svæði. Í bókun bæjarstjórnar var lögð áhersla á að leiðarljós deiliskipulagsgerðarinnar yrði að leggja grunn að metnaðarfullri byggð fyrir fjölskyldufólk ásamt því að tryggja að umhverfið beri einkenni byggðar á Álftanesi „sveit í borg“.  Boðað var til íbúafundar á Álftanesi í byrjun árs þar sem íbúar fengu tækifæri til að koma hugmyndum og ábendingum að og fundargerð íbúafundarins fylgdi með sem fylgiskjal með keppnislýsingu. 

Úrslit tilkynnt - sýning á tillögum í íþróttamiðstöðinni á Álftanesi

Niðurstöður liggja nú fyrir og voru þær kynntar fimmtudaginn 15. júní 2017.  Alls bárust 4 tillögur og voru 3 þeirra verðlaunaðar.  Í fyrsta sæti var tillaga Andersen & Sigurdsson Arkitekter og verðlaun fyrir fyrsta sæti voru 4.000.000. kr.  Í öðru sæti var tillaga Hildigunnar Haraldsdóttur arkitekts, Móheiðar Helgu Huldudóttur Obel arkitekts o.fl. og verðlaun fyrir annað sæti voru 2.500.000 kr.  Tillaga Dagnýjar Bjarnadóttur landslagsarkitekts var útnefnd athyglisverð tillaga og fékk í verðlaun 500 000 kr.  

Á meðfylgjandi fyrstu mynd með frétt má sjá frá vinstri:  Sigurður Guðmundsson bæjarfulltrúi og formaður dómnefndar, Þórhallur Sigurðsson arkitekt maa, fulltrúi vinningshafa, og Gunnar Einarsson bæjarstjóri Garðabæjar.

Tillögurnar verða til sýnis í íþróttamiðstöðinni á Álftanesi næstu mánuði eða til 15. september. 

1. verðlaun. Plansi vinningstillögu í 1. sæti (pdf-skjal 38 MB) Tillaga nr. 2

2. verðlaun. Tillaga nr. 4

Athyglisverð tillaga. Tillaga nr. 1

Tillaga nr. 3. Mynd 1 . Mynd 2 . Mynd 3 . 

Umsögn dómnefndar

Í dómnefnd sátu Sigurður Guðmundsson bæjarfulltrúi og formaður skipulagsnefndar, formaður tilnefndur af Garðabæ, Guðmundur Kristján Jónsson BES í umhverfisfræðum tilnefndur af Garðabæ, Bjargey Björgvinsdóttir arkitekt FAÍ og byggingarverkfræðingur tilnefnd af Íslandsbanka, Indro Indriði Candi arkitekt FAÍ tilnefnd af Arkitektafélagi Íslands og Hlín Sverrisdóttir landslagsarkitekt FÍLA og skipulagsfræðingur SFFÍ tilnefnd af Arkitektafélagi Íslands. Guðmundur Kristján Jónsson, sagði sig frá dómnefndarstörfum í febrúar  og í hans stað var tilnefndur Gísli Rafn Guðmundsson, borgarhönnuður,  M.Sc. í arkitektúr og B.Sc í umhverfisskipulagi.  Arinbjörn Vilhjálmsson skipulagsstjóri Garðabæjar var ritari dómnefndar.


Umsögn dómnefndar um vinningstillögu er eftirfarandi:

Í tillögunni er lögð fram skýr og aðlaðandi grunnhugmynd. Þar er áberandi að byggðinni er deilt niður í smærri þyrpingar húsa með sameiginlegu miðrými og aðgengi allra íbúða að grænum svæðum. Tillöguhöfundar leggja einnig ríka áherslu á náin tengsl við náttúruna og almennt hugmyndina um sveit í borg.
Það er mat dómnefndar að ákveðna þætti tillögunnar þurfi að útfæra nánar.   Þar má nefna útfærslu gatnamóta sem til dæmis verða á Suðurnesvegi og á Höfðabraut og aðkomuleið að húsaþyrpingum í Breiðumýri. Í tillögunni er talað um að verslun og þjónusta gæti rúmast í kjarna nálægt skólanum en að auki á jarðhæðum fjölbýlishúsa á miðsvæðinu en þær hugmyndir hefði mátt útfæra betur. Æskilegt hefði verið að útfærslum á stígum og útivistarsvæðum væru gerð betri skil.
Styrkur tillögunar liggur í þeirri heildarsýn og hugmyndafræði sem lögð er fram í greinargerð og skýringarmyndum.  Tillagan hefur þann kost að hún býður upp á sveigjanleika í uppbyggingu og áfangaskiptingu. Dómnefndin telur að þessar hugmyndir samræmist vel framtíðarsýn íbúa og markmiðum samkeppninnar og geti myndað góðan grunn að skipulagi svæðisins. 

Myndir úr vinningstillögu í fyrsta sæti:

Álftanes - mynd úr vinningstillögu

 

 

  

 
 
 
 
 
 
 

 

 

 

 

 

 

Vinningstillaga Álftaness grunnmynd