Fjölbreytt dagskrá á 17. júní í Garðabæ
Fjölbreytt og skemmtileg dagskrá er í boði á 17. júní hátíðarhöldunum í Garðabæ nk. laugardag frá morgni til kvölds.
Öll dagskráin er aðgengileg hér í viðburðadagatalinu á vef Garðabæjar.
Viðburður á fésbókarsíðu Garðabæjar
Morgundagskráin fer fram víðs vegar um Garðabæ. Á Álftanesi verður hið árlega 17. júnímót Golfklúbbs Álftaness sem hefst kl. 10. Sundlaugin á Álftanesi verður með ókeypis aðgang frá kl. 10-14 og gestir fá einnig ókeypis aðgang þennan dag í Hönnunarsafn Íslands á Garðatorgi sem er opið frá kl. 12-17. Í Vífilsstaðavatni verður ókeypis veiði allan daginn við suðurbakka vatnsins og á bryggju.
Hátíðardagskrá að morgni á Álftanesi
Hátíðardagskráin á Álftanesi hefst með helgistund í safnaðarheimilinu að Brekkuskógum kl. 10 og kl. 10:15 verður gengið í skrúðgöngu að hátíðarsvæði við Álftaneslaug. Þar verður hátíðarsvið þar sem fram koma m.a. Skoppa og Skrítla og Artemis. Á svæðinu verða einnig hoppukastalar og sölutjöld. Síðar um daginn verður hið margrómaða kaffihlaðborð Kvenfélags Álftaness frá kl. 14.30-16 í hátíðarsal Álftaness.Hátíðardagskrá að degi við hátíðarsvæði við Ásgarð
Kl. 13:15 verður hátíðarstund í Vídalínskirkju þar sem nýstúdent flytur ávarp. Skrúðganga leggur af stað kl. 14 frá Vídalínskirkju að hátíðarsvæði við Garðaskóla og Ásgarð. Dagskráin á hátíðarsviði við Ásgarð hefst kl. 14.30 með ávarpi forseta bæjarstjórnar, meðal þeirra sem koma fram eru Artemis, Villi og Sveppi, Skoppa og Skrítla, Svala og Friðrik Dór.Inni í Ásgarði verður boðið upp á fimleikasýningu frá fimleikadeild Stjörnunnar. Á hátíðarsvæðinu verða hoppukastalar, stultur og leikföng, og sölutjöld. Hið árlega kaffihlaðborð Kvenfélags Garðabæjar verður haldið í Flataskóla kl. 14.30-17.
Dagskráin að morgni og degi til er í umsjón Skátafélagsins Vífils með aðstoð Skátafélagsins Svana að morgni.
Hátíðartónleikar að kvöldi í Kirkjuhvoli
Um kvöldið verða haldnir hátíðartónleikar í safnaðarheimili Vídalínskirkju, Kirkjuhvoli, kl. 20.00. Þar stígur hljómsveitin Salon Islandus á svið ásamt Lilju Guðmundsdóttur sópran og Elmari Gilbertssyni tenór. Á efnisskránni eru vinsæl Vínarlög – aríur, dúettar, valsar og önnur létt tónlist. Sólónúmer konsertmeistarans Sigrúnar Eðvaldsdóttur verður einnig á sínum stað. Aðgangur að tónleikunum er ókeypis í boði Garðabæjar og allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir.