Nemendur Hofsstaðaskóla fengu viðurkenningar fyrir forritun
Í lok maí var fulltrúum Hofsstaðaskóla boðið á lokahóf Micro:bit forritunarleikanna Kóðinn 1.0 sem fram fóru í vetur fyrir nemendur í 6. og 7. bekk. Lokahófið var haldið í húsakynnum Ríkisútvarpsins og þar afhenti Kristján Þór Júlíusson mennta- og menningarmálaráðherra viðurkenningar með aðstoð Ævars vísindamanns. Viðurkenningarnar voru afhentar fyrir þátttöku í verkefninu og framkvæmd kennslunnar. Það voru tveir nemendur Hofsstaðaskóla og tveir nemendur Klébergsskóla á Kjalarnesi sem fengu viðurkenningar sem kóðari ársins. Svo fengu nemendur að fara í skoðunarferð um húsakynni RÚV þar sem nemendur fengu m.a. að kynnast hljóð- og myndstúdíóum RÚV, búningageymslunni og annarri aðstöðu.
Þau Katrín Eva Gunnþórsdóttir og Viktor Páll Veigarsson, nemendur Hofsstaðaskóla, fengu að heimsækja höfuðstöðvar fyrirtækisins CCP í vikunni þar sem þau fengu að skoða og prófa ýmsa leiki í sýndarveruleika. Heimsóknin var sérstök viðurkenning fyrir þátttöku í Micro:bit forritunarverkefninu.
Sjá frétt á vef Hofsstaðaskóla um lokahófið.
Frétt á vef Hofsstaðaskóla um heimsókn í CCP
Forritunarleikarnir Kóðinn 1.0
Verkefnið sem er hýst af KrakkaRúv snýst um að kynna grunnatriði forritunar fyrir nemendum í 6. og 7. bekk grunnskóla. Um er að ræða samstarfsverkefni mennta- og menningarmálaráðuneytis, Menntamálastofnunar, Samtaka iðnaðarins ásamt fyrirtækjum í tæknigeiranum.
Sjá nánar í frétt á vef Menntamálastofnunar um upphaf verkefnisins.