26. maí 2017

Gengið um Garðahverfi

Það var góð mæting í sögugöngu um Garðahverfi þriðjudaginn 23. maí sl. Um 80 manns mættu í gönguna sem var farin undir leiðsögn Ragnheiðar Traustadóttur fornleifafræðings. Gengið var um minjar í norðurhluta Garðahverfis en menningarlandslagið á svæðinu er einstakt.

  • Frá sögugöngu um Álftanes í september 2017
    Frá sögugöngu um Álftanes í september 2017

Það var góð mæting í sögugöngu um Garðahverfi þriðjudaginn 23. maí sl. Um 80 manns mættu í gönguna sem var farin undir leiðsögn Ragnheiðar Traustadóttur fornleifafræðings.  Gengið var um minjar í norðurhluta Garðahverfis en menningarlandslagið á svæðinu er einstakt. Þar eru kunnar fornleifar sem minna á sjósókn, búskap, samgöngur, trúarlíf, skólahald og jafnvel réttarsögu.  Skipulag byggðarinnar á rætur að rekja aftur til miðalda ef ekki lengra, girt hlöðnum görðum. Þarna eru t.d. bæjarhólar, varir, brunnar, útihús, stekkir, fjárrétt, fjárborg, gerði, kirkjugarður, aftökustaður, steinar með áletrunum og fornar leiðir. Einnig var fyrsti heimavistarskólinn ætlaður almúgabörnum reistur á Hausastöðum 1759. 

Garðahverfi - verndarsvæði í byggð

Nú liggur fyrir tillaga um að gera Garðahverfi að verndarsvæði í byggð og tillagan byggir á verndarákvæðum deiliskipulags Garðahverfis. Sjá nánari upplýsingar í frétt hér á vef Garðabæjar frá 28. apríl. 
Áður en haldið var í sögugönguna sl. mánudag hélt Minjastofnun Íslands fund á Garðaholti í Garðahverfi þar sem tilgangur fundarins var að kynna stöðu við gerð tillagna að verndarsvæðum í byggð sem hafa hlotið styrk úr húsafriðunarsjóði.  Þar var m.a. fjallað um Garðahverfið og tillöguna sem nú liggur fyrir.

Næsta söguganga - Hraunstígur - mánudag 29. maí

Næsta söguganga verður farin mánudaginn 29. maí nk. frá Bókasafni Garðabæjar á Garðatorgi og hringurinn sem farinn verður er kallaður Hraunstígur í Wapp- gönguleiðsagnarappinu. Áður en haldið verður í gönguna verður kynning á gönguleiðsagnarappinu Wapp-inu á Bókasafninu og kynningin hefst kl. 17:30.  Í Wapp-inu
geta áhugasamir nálgast fjölbreyttar göngu-, hlaupa- og hjólaleiðir í Garðabæ án endurgjalds í boði Garðabæjar. Að lokinni kynningu eða kl. 18:15 verður haldið í gönguferð um Hraunstíg og áætlaður göngutími er um ein og hálf klukkustund. 

Hér í viðburðadagatalinu á vef Garðabæjar má lesa nánar um kynninguna og sögugönguna.