19. maí 2017

Fjölmargir hópar tóku þátt í hreinsunarátakinu

Undanfarin ár hefur þátttaka aukist jafnt og þétt í hinu árlega hreinsunarátaki bæjarins þar sem félög, hópar og nágrannar eru hvattir til að taka sig saman og hreinsa sitt nærumhverfi.

  • Framtakssamir íbúar taka þátt í hreinsunarátaki 2017
    Framtakssamir íbúar taka þátt í hreinsunarátaki 2017

Undanfarin ár hefur þátttaka aukist jafnt og þétt í hinu árlega hreinsunarátaki bæjarins þar sem félög, hópar og nágrannar eru hvattir til að taka sig saman og hreinsa sitt nærumhverfi. Hreinsunarátakið í ár stóð yfir frá 18,-30. apríl en vegna veðurs voru einhverjir hópar við hreinsun fram í fyrri hluta maí.  Í ár var mjög góð þátttaka og 31 hópur skráður til leiks.  Hóparnir í ár voru fjölbreyttir, en það voru fjölmörg félög sem tóku þátt sem vildu taka til hendinni í umhverfinu, skólarnir í Garðabæ hafa verið virkir þátttakendur með nemendum sínum og einnig íþróttahópar sem hafa verið að safna fyrir keppnisferðum.  

Síðast en ekki síst hafa íbúar tekið sig saman og þar hafa íbúar á Smáraflöt staðið sig einstaklega vel undanfarin ár. Íbúar þar tóku mikið af gömlu girðingarefni eftir hesthúsið sem var í hrauninu á árum áður, í hrauninu fundu þau einnig exi, byggingarefni, nestisafganga, dósir og margt fleira.  Í gjótu einni lengst úti í hrauni fann hópurinn innkaupakerru og í annarri gjótu fannst nýtt fjallahjól sem hafði verið stolið stuttu áður en er nú komið aftur til rétts eiganda sem var að vonum mjög sáttur við fundinn. 

Á meðfylgjandi myndum með frétt má sjá íbúa við Smáraflöt taka til hendinni í hreinsunarátaki ársins. 

Vorhreinsun lóða stendur til 26. maí

Nú stendur hin árlega vorhreinsun yfir þegar bæjarbúar eru hvattir til að hreinsa lóðir sínar í sameiginlegu átaki dagana 15.-26. maí.  Starfsmenn bæjarins og verktakar verða á ferðinni þessa daga og hirða garðúrgang sem settur hefur verið út fyrir lóðamörk. Bænum er skipt niður í hverfi og hér má sjá hvaða hverfi eru eftir næstu daga. 

18.-22.. maí  Tún, Mýrar, Garðatorg, Móar, Byggðir, Lundir, Búðir, Bæjagil, Hæðahverfi, Hnoðraholt 

23.-26. maí   Álftanes, Garðahverfi, Prýði, Hleinar og v. Álftanesveg