4. maí 2017

Hönnunarsafn Íslands fær íslenskt leirmunasafn að gjöf frá Bláa Lóninu

Nýverið færði Bláa Lónið Hönnunarsafni Íslands í Garðabæ íslenskt leirmunasafn að gjöf. Leirmunasafnið samanstendur af fjölbreyttu úrvali muna eftir nánast alla íslenska og erlenda leirlistamenn sem starfað hafa hér á landi.
  • Séð yfir Garðabæ

Nýverið færði Bláa Lónið Hönnunarsafni Íslands í Garðabæ íslenskt leirmunasafn að gjöf. Leirmunasafnið samanstendur af fjölbreyttu úrvali muna eftir nánast alla íslenska og erlenda leirlistamenn sem starfað hafa hér á landi.

Safnið sem var í eigu einkaaðila telur um 1500 muni frá upphafi leirlistar og leirmunagerðar á Íslandi frá 4. áratug síðustu aldar til dagsins í dag. Á meðal munanna eru verk eftir Guðmund frá Miðdal og Listvinahúsið, Ragnar Kjartansson, Funa, Hauk Dór, Steinunni Marteinsdóttur, Koggu, Kristínu Ísleifsdóttur, Dieter Roth og fleiri listamenn. Óhætt er að segja að sögu íslenskrar leirlistar megi lesa í gegnum safnið.

Harpa Þórsdóttir, fyrrverandi forstöðumaður Hönnunarsafns Íslands, veitti leirlistasafninu móttöku fyrir hönd Hönnunarsafnsins og var það eitt af síðustu embættisverkum hennar áður en hún hóf störf sem safnstjóri Listasafns Íslands. „Framlag Bláa Lónsins markar Hönnunarsafninu sérstöðu meðal íslenskra safna á varðveislu íslenskra leirmuna og veitir Hönnunarsafninu tækifæri til að standa að rannsóknum og sýna íslenska leirmuni og leirlist með heildstæðum hætti" segir Harpa. Leirmunasafnið bætist við þá leirmuni sem safnið á nú þegar en viðbótin gerir leirmunasafnið að einu stærsta söfnunarsviðinu sem Hönnunarsafnið varðveitir í dag.

Bláa Lónið hefur alltaf lagt mikla áherslu á íslenska hönnun í starfsemi sinni. Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa Lónsins segir að ,,með því að færa safninu leirmunasafnið að gjöf vilji Bláa Lónið gera þennan þátt hönnunarsögunnar sem er þýðingarmikill þáttur í menningararfi okkar Íslendinga, aðgengilegan. Þá vilji félagið einnig styðja almennt við starfsemi Hönnunarsafnsins með þessum hætti og þannig undirstrika mikilvægi íslenskrar hönnunar fyrir atvinnulífið. “