20. apr. 2017

Veiðitímabilið er hafið við Vífilsstaðavatn

Stangveiðileyfi í Vífilsstaðavatni eru seld með Veiðikortinu og veiðitímabilið er frá 1. apríl til 15. september. Vífilsstaðavatn og umhverfi er fuglafriðland og þar er afar fjölbreytt fuglalíf. Þessa dagana er vorkoma fugla og mikilvægt að fólk sem dvelur í friðlandinu taki tillit til fuglalífsins
  • Séð yfir Garðabæ

Stangveiðileyfi í Vífilsstaðavatni eru seld með Veiðikortinu og veiðitímabilið er frá 1. apríl til 15. september.    Ef ,,Veiðikortið" er ekki með í för veiðimanna við vatnið geta veiðieftirlitsmenn krafið viðkomandi um gjaldtöku fyrir dagsleyfi sem er 1000 kr.

Vífilsstaðavatn og umhverfi er fuglafriðland og þar er afar fjölbreytt fuglalíf.  Þessa dagana er vorkoma fugla og mikilvægt að fólk sem dvelur í friðlandinu taki tillit til fuglalífsins. Hundum er óhemill aðgangur að friðlandi Vífilsstaðavatns yfir varptímann frá 15. apríl til 1. júlí á ári hverju.

Flórgoðar eru sérstaklega velkomnir gestir í friðlandinu. Undanfarin vor hafa verið sett út á vatnið hreiðurstæði úr birki- og víðigreinum til að hjálpa flórgoðum við að koma upp hreiðri og ungum. Þessa aðstoð hafa flórgoðarnir þegið og nýtt sér til hreiðurgerðar. Eins og vitað er ganga flórgoðar helst ekki á land, en þeir eru miklir sund- og kafsundsfuglar. Áhugavert er að fylgjast með atferli flórgoðanna, og ef heppnin er með er hægt að sjá tilkomumikinn tilhugalífs dans þeirra. Það getur einnig verið mikið sjónarspil að fylgjast með þegar flórgoðarnir verja óðal sitt langt umhverfis hreiðrið í áflogum þeirra á meðal.