12. apr. 2017

Hátíðarhöld á sumardaginn fyrsta 20. apríl

Sumarkomunni verður fagnað hér í Garðabæ á sumardaginn fyrsta 20 apríl n.k. Hátíðahöldin eru sem fyrr í umsjá skátafélagsins Vífils sem fagnar 50 ára afmæli sínu á þessu ári.
  • Séð yfir Garðabæ

Sumarkomunni verður fagnað hér í Garðabæ á sumardaginn fyrsta 20 apríl n.k. Hátíðahöldin eru sem fyrr í umsjá skátafélagsins Vífils sem fagnar 50 ára afmæli sínu á þessu ári.

Dagskráin er með hefðbundnu sniði þar sem haldin verður skátamessa, skrúðganga og skemmtidagskrá og bæjarbúar eru hvattir til að taka þátt og efla þannig bæjarbraginn.

Auglýsing (pdf-skjal) - sjá líka dagskrá hér í viðburðadagatalinu á vef Garðabæjar.

Viðburður á fésbókarsíðu Garðabæjar

Skátamessa í Vídalínskirkju og skrúðganga

Skátafélagið hefur tekið þátt í guðsþjónustu í kirkjunni á sumardaginn fyrsta í tæp 50 ár. Sr. Friðrik Hjartar þjónar og Skátakórinn syngur. Hátíðarávarp flytur Ágúst Þorsteinsson fyrrverandi skátahöfðingi og fyrsti félagsforingi Vífils. Skátar lesa upp og veittar verða viðurkenningar.

Skrúðganga leggur af stað að lokinni skátamessu um kl. 14.00. Gengið verður frá Vídalínskirkju, niður Hofsstaðabraut, eftir Bæjarbraut að Hofsstaðaskóla. Skátar sjá um fánaborg og Blásarasveit tónlistarskólans um göngutakt og hressan undirleik.

Dagskrá við Hofsstaðaskóla - skátakaffi og kökuhlaðborð

Við Hofsstaðaskóla leikur Blásarasveitin nokkur lög og að því loknu hefst fjölbreytt skemmtidagskrá. Bjarni töframaður skemmtir.  Nemendur í Sjálandsskóla flytja atriði úr Bláa hnettinum. Gestir geta prófað veltibílinn, hoppað í hoppukastala eða farið í kassaklifur og aðrar skátaíþróttir. Sjoppa verður opin og skátar á leið til Noregs á skátamót selja kandíflos og poppkorn í fjáröflunarskini.

Í samkomusal Hofsstaðaskóla verður kaffisala og skátatertuhlaðborð. Þar koma fjölskyldur úr bænum saman, fagna sumarkomunni og styrkja um leið skátastarfið. Skátafélagið fagnar 50 ára afmæli sínu einmitt þennan dag og því er tilvalið að stofna til endurfunda eldri skátaflokka og skátasveita í kaffihúsastemmingu. Kaffihlaðborðið kostar 1800 kr. fyrir fullorðna og 1000 kr. fyrir börn 6 – 12 ára.

Sjáumst á sumardaginn fyrsta!