12. apr. 2017

Jazzhátið Garðabæjar 20.-22. apríl 2017

Jazzhátíð Garðabæjar verður haldin dagana 20.-22. apríl nk. Hátíðin sem nú er haldin í 12. sinn er á vegum menningar- og safnanefndar Garðabæjar en listrænn stjórnandi hátíðarinnar frá upphafi er Sigurður Flosason tónlistarmaður. Í ár skartar hátíðin fjölbreyttu úrvali íslenskra jazztónlistarmanna á ýmsum aldri og boðið verður upp á ólík stílbrigði jazz við allra hæfi. Hátíðin fær að þessu sinni til sín marga gesti að utan frá Lúxemborg og nágrannaríkjum okkar Danmörku og Svíþjóð.
  • Séð yfir Garðabæ

Jazzhátíð Garðabæjar verður haldin dagana 20.-22. apríl nk.  Hátíðin sem nú er haldin í 12. sinn er á vegum menningar- og safnanefndar Garðabæjar en listrænn stjórnandi hátíðarinnar frá upphafi er Sigurður Flosason tónlistarmaður.  Í ár skartar hátíðin fjölbreyttu úrvali íslenskra jazztónlistarmanna á ýmsum aldri og boðið verður upp á ólík stílbrigði jazz við allra hæfi.  Hátíðin fær að þessu sinni til sín marga gesti að utan frá Lúxemborg og nágrannaríkjum okkar Danmörku og Svíþjóð.

Hefst að kvöldi Sumardaginn fyrsta

Hátíðin hefst að venju með tónleikum að kvöldi til Sumardaginn fyrsta, kl. 20:30 fimmtudaginn 20. apríl, þegar DeLux kvartett Sigurðar Flosasonar flytur nýjan evrópskan jazz í Kirkjuhvoli, safnaðarheimili Vídalínskirkju.  Sigurður fær til sín þrjá af fremstu jazztónlistarmönnum Lúxemborgar sem sækja okkur heim með stuðningi  ,,Fonds National Cultural, Luxembourg“. 

Jazzveisla á föstudegi

Á föstudagskvöldinu 21. apríl verður boðið upp á sannkallaða jazzveislu í Kirkjuhvoli þegar Tómas R. Einarsson mætir með 10 manna jazzband skipað nokkrum af fremstu söngvurum og hljóðfæraleikurum landsins, þar má nefna Sigríði Thorlacíus söngkonu og Bogomíl Font. Hljómsveitin flytur latínjazz af metsöluplötunni Bongó sem kom út fyrir síðustu jól. 

Tónleikar frá hádegi til kvölds á laugardeginum

Á laugardeginum 22. apríl geta gestir notið jazztónlistar allan daginn fram á kvöld en fyrstu tónleikarnir hefjast kl. 13:30 í Kirkjuhvoli þegar sænski jazzpíanóleikarinn Mattias Nilsson flytur eigin tónsmíðar, þjóðlög og sálma frá heimalandi sínu. 
Svo tekur við tónleikahald í félagsmiðstöðinni Jónshúsi í Sjálandi kl. 15 á laugardeginum þar sem hin unga og efnilega jazzsöngkona María Magnúsdóttir úr Garðabæ, mætir með kvartett sinn og flytur jazzstandarda með swing ívafi. 
Jazztónlistarveislan heldur svo áfram síðdegis kl. 17 í hinu litla en notalega Haukshúsi á Álftanesi þar sem tríó Agnars Márs Magnússonar flytur þjóðlegan jazz og allir eru velkomnir þar á meðan húsrúm leyfir. 
Hátíðinni lýkur með útgáfutónleikum Richard Andersson NOR í Kirkjuhvoli með stuðningi ,,Nordic Cultural Point“. En þar mæta til leiks danski bassaleikarinn Richard Andersson ásamt Garðbæingunum þeim Óskari Guðjónssyni og Matthíasi Hemstock.

Hljómsveitir úr Tónlistarskóla Garðabæjar hita upp fyrir alla kvöldtónleikana í Kirkjuhvoli og hefst þeirra leikur um kl. 20.

Aðgangur er ókeypis á alla viðburði jazzhátíðarinnar og allir eru velkomnir á meðan húsrúm leyfir. Dagskráin er aðgengileg hér á vef Garðabæjar.
Sjá líka fésbókarsíðu Jazzhátíðar Garðabæjar.