30. mar. 2017

Ný hjólabraut tekin í notkun

Það var líf og fjör á nýju hjólabrautinni sem er á skólasvæðinu milli Garðaskóla og Flataskóla þegar brautin var formlega tekin í notkun fimmtudaginn 30. mars í sólskinsveðri.

  • Ný hjólabraut tekin í notkun
    Ný hjólabraut tekin í notkun

Það var líf og fjör á nýju hjólabrautinni sem er á skólasvæðinu milli Garðaskóla og Flataskóla þegar brautin var formlega tekin í notkun fimmtudaginn 30. mars í sólskinsveðri.  Skólabörn úr Flataskóla voru mætt á svæðið til að fylgjast með þeim Gunnari Einarssyni bæjarstjóra Garðabæjar og Björgu Fenger, formanni íþrótta- og tómstundaráðs Garðabæjar hjóla brautina.  Þau Gunnar og Björg stóðu sig vel undir pressu þegar þau hjóluðu tvo hringi um brautina undir tímatöku hjá Kára Jónssyni íþróttafulltrúa.  Nemendur Flataskóla fylltu svo brautina og þar voru greinilega vanir krakkar á ferð á reiðhjólum og hlaupahjólum. Öll voru þau með hjálma enda skylda að nota þá í brautinni en einnig er hvatt til notkunar á öðrum hlífðarbúnaði eins og öryggishlífa á úlnliðum og olnbogum.  

,,Öldur" og hallandi beygjur á brautinni 

Hjólabrautin er svokölluð ,,Pumptrack" og er færanleg úr samsettum einingum og smíðuð úr veðurþolnum efnum. Brautin er vottuð með TUV stöðlum sem útileiktæki, geymist vel og er auðveld að færa til.  Á brautinni eru ,,öldur" og hallandi beygjur.  Brautin er svokölluð World Cup braut sem er 65,2 metrar að lengd og hentar sérstaklega vel fyrir alla aldurshópa, frá 5 ára aldri og upp úr.  Einnig er hægt að taka þátt í alþjóðlegum tímatökum á svona braut þar sem keppni er haldin um
Hún hefur líka þann möguleika að taka þátt í alþjóðlegum tímatökum þar sem er keppni haldin um allan heim í leit að hröðum einstaklingum.

Betri aðstaða til að stunda fjölbreytta hreyfingu

Aðstaða fyrir hjólabretti, BMX, línuskauta og hlaupahjól hefur verið ábótavant en með þessari braut skapast nýjir möguleikar fyrir fólk á öllum aldri að fá útrás fyrir frjálsan og krefjandi leik.  Brautin nýtist þeim sem vilja stunda einstaklingsíþróttir eins og hjólreiðar, hjólabrettasport, línuskauta, hlaupahjól, BMX,og auk þess er hún gríðarlega skemmtilegt leiktæki fyrir krakka að leika sér í.

Reiturinn á milli Garðaskóla og Flataskóla fellur vel að notkun brautarinnar.  Aðgengi er gott og aðkomuleiðir öruggar fyrir hjólandi og gangandi. Auk þess er svæðið undir eftirliti á skólatíma og liggur vel að frístundasvæðinu við Ásgarð. Með uppsetningu hjólabrautarinnar er Garðabær að skapa betri aðstöðu fyrir fleiri hópa til að stunda holla hreyfingu og auka þannig við þau frístundatilboð sem hægt er að velja úr innan bæjarins.