24. mar. 2017

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar í 7. bekk

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar fór fram í Kirkjuhvoli, safnaðarheimili Vídalínskirkju fimmtudaginn 23. mars sl. Nemendur úr sjöunda bekk í Garðabæ og Seltjarnarnesi kepptu á lokahátíðinni.
  • Séð yfir Garðabæ

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar fór fram í Kirkjuhvoli, safnaðarheimili Vídalínskirkju fimmtudaginn 23. mars sl. Nemendur úr sjöunda bekk í Garðabæ og Seltjarnarnesi kepptu á lokahátíðinni.

Á lokahátíðinni fengu 10 nemendur í sjöunda bekk úr Álftanesskóla, Flataskóla, Hofsstaðaskóla, Sjálandsskóla og Valhúsaskóla (grunnskóli Seltjarnarness) að spreyta sig á upplestri á fyrirfram ákveðnum texta.  Í ár voru skáld keppninnar Andri Snær Magnason og Steinunn Sigurðardóttir. Einnig fá nemendur að lesa ljóð að eigin vali.

Á meðan á hátíðinni stóð var einnig boðið upp skemmtiatriði frá skólunum sem tóku þátt og voru þau af margvíslegum toga, klarinettuleikur, píanóleikur, ljóðaupplestur á myndbandi, listir með ,,diablo" og söngatriði.  Í lok hátíðar afhenti Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar, öllum lesurunum bók frá Félagi íslenskra bókaútgefenda sem viðurkenningu fyrir þátttökuna.  Allir þátttakendur stóðu sig vel og erfitt var að velja þrjá lesara úr hópnum.  Formaður dómnefndar að þessu sinni var Hrönn Bergþórsdóttir frá samtökunum Röddum og hún tilkynnti um val dómnefndar í lokin og afhenti sigurvegurunum viðurkenningu Radda samtaka um vandaðan upplestur og framsögn og peningaverðlaun.

Í fyrsta sæti var Sonja Lind Sigsteinsdóttir úr Hofsstaðaskóla, í öðru sæti var Helga Sigríður Kolbeins úr Álftanesskóla og í þriðja sæti var Bergdís Lilja Þorsteinsdóttir úr Hofsstaðaskóla.  (Á meðfylgjandi fyrstu mynd með frétt má sjá frá vinstri: Sonja Lind Sigsteinsdóttir, Margrét Harðardóttir skólastjóri Hofsstaðaskóla, Bergdís Lilja Þorsteinsdóttir, Helga Sigríður Kolbeins og Erna I. Pálsdóttir aðstoðarskólastjóri Álftanesskóla.)

Um Stóru upplestrarkeppnina

Garðabær hefur tekið þátt í keppninni nánast frá upphafi eða í 20 ár en Álftanesskóli hefur verið með frá byrjun eða í 21 ár. Lokahátíðir Stóru upplestrarkeppninnar eru haldnar um land allt í mars mánuði en undirbúningur hefst formlega á degi íslenskrar tungu þann 16. nóvember og nemendur læra að leggja rækt við góðan upplestur. Hátíðarhlutinn er það sem kalla mætti hina eiginlegu „keppni“. Haldin er upplestrarhátíð í hverjum skóla í lok febrúar eða byrjun mars þar sem tveir nem­endur eru valdir til áframhaldandi þátttöku í keppninni fyrir hönd skólans. Stóru upplestrarkeppninni lauk svo formlega með lokahátíðinni sem að þessu sinni var haldin í Kirkjuhvoli í Garðabæ.

Garðabær og Seltjarnarnes hafa undanfarin ár verið í samstarfi um lokahátíðina og skiptast á að halda lokahátíðina en keppnin er haldin á þriggja ára fresti á Seltjarnarnesi.  Vefur Stóru upplestrarkeppninnar