24. mar. 2017

Hönnunarsafn Íslands tekur þátt í HönnunarMars

HönnunarMars hefur fest í sessi og er hátíð sem fer fram víðs vegar um höfuðborgarsvæðið dagana 23.-26. mars. Hönnunarsafn Íslands í Garðabæ tekur að venju þátt í HönnunarMars og býður upp á stólasýningu. Sunnudaginn 26. mars nk. kl. 14-15:30 ætlar Þóra Sigurbjörnsdóttir sérfræðingur safnsins og sýningarstjóri sýningarinnar Stóll að segja frá stólum á sýningunni
  • Séð yfir Garðabæ

HönnunarMars hefur fest í sessi og er hátíð sem fer fram víðs vegar um höfuðborgarsvæðið dagana 23.-26. mars. Á meðal viðburða ár hvert eru sýningar, fyrirlestrar, uppákomur og innsetningar þar sem allar greinar hönnunar eru gerðar skil; fatahönnun, arkitektúr, húsgagna- og innanhússhönnun, grafísk hönnun og vöruhönnun.

Hönnunarsafn Íslands í Garðabæ tekur að venju þátt í HönnunarMars og býður upp á stólasýningu. Stólarnir eru úr sístækkandi safneign Hönnunarsafnsins. Þeir elstu frá 4. áratugnum en sá yngsti frá 2013. Stólasafnið telur nokkur hundruð stóla, allt frá innlendri og erlendri fjöldaframleiðslu til stóla sem voru sérhannaðir fyrir ákveðna staði eða frumgerðir sem hönnuðir leggja fram sem tillögur í þróunarvinnu sinni.

Sunnudaginn 26. mars nk. kl. 14-15:30 ætlar Þóra Sigurbjörnsdóttir sérfræðingur safnsins og sýningarstjóri sýningarinnar Stóll að segja frá stólum á sýningunni. Með henni verður Elsa Nielsen grafískur hönnuður sem hefur teiknað einn stól á dag úr safneign safnsins.

Viðburður á fésbókarsíðu Hönnunarsafnsins.

Dagskrá á HönnunarMars 

Hönnunarsafn Íslands er til húsa að Garðatorgi 1 í Garðabæ.
Safnið er opið alla daga (nema mánudaga) frá 12-17.