14. mar. 2017

Traust fjárhagsstaða Garðabæjar

Ársreikningur Garðabæjar fyrir árið 2016 lýsir sterkri fjárhagsstöðu sveitarfélagsins en rekstrarafgangur er hærri en áætlun gerði ráð fyrir
  • Séð yfir Garðabæ

Ársreikningur Garðabæjar fyrir árið 2016 lýsir sterkri fjárhagsstöðu sveitarfélagsins.  Rekstrarafgangur nemur 1,7 milljarði kr. og að frádregnum gatnagerðartekjum er rekstrarafgangur 759 millj. kr.  Í áætlun ársins var gert ráð fyrir 312 millj. kr. rekstrarafgangi. 

Við gerð ársreikningsins hafa gatnagerðartekjur vegna Sjálandshverfis og Akrahverfis sem færðar hafa verið sem fyrirframinnheimtar tekjur í efnahag verið tekjufærðar og nema samtals 973 millj.kr.

Betri rekstrarafkoma en áætlun gerði ráð fyrir

Betri rekstrarafkoma á árinu 2016 skýrist fyrst og fremst af fjölgun íbúa umfram það sem gert var ráð fyrir í áætlun.  Í árslok 2016 voru íbúar Garðabæjar 15.250 og hafði fjölgað um 603 frá árinu 2015 eða um 4,2% en í fjárhagsáætlun hafði verið gert ráð fyrir 1,5% íbúafjölgun.  Fjölgun íbúa umfram áætlun hefur í för með sér hækkun útsvarstekna. 

Rekstur málaflokka er í góðu samræmi við fjárhagsáætlun og frávik í stærstu málaflokkum óveruleg. 

Kennitölur í rekstri bera vott um mjög trausta fjárhagsstöðu bæjarins.  Skuldahlutfall er 79% en var 101% árið 2015.  Skuldaviðmið nemur 63%.  Veltufé frá rekstri er 20,6%, veltifjárhlutfall 0,8 og eiginfjárhlutfall 56%.

Miklar framkvæmdir

Fjárfestingar á árinu 2016 námu 1.209 millj. kr. en áætlun gerði ráð fyrir 1.228 millj. kr. Helstu framkvæmdir voru bygging nýs grunn- og leikskóla í Urriðaholti fyrir rúmlega 400 millj. kr., og er stefnt að því að starfsemi skólans hefjist í lok árs 2017. Kaupverð fasteigna sem keyptar voru námu 304 millj. kr., framkvæmdir við gatnagerð námu um 650 millj. kr. (en tekjur ársins af eignfærðri gatnagerð námu 376 millj. kr.), til íþróttamannvirkja var varið um 160 millj. kr.  auk ýmissa annarra smærri verkefna.

Uppbygging og góð þjónusta við íbúa

Sterk og öflug fjárhagsstaða Garðabæjar gerir það að verkum að sveitarfélagið er vel í stakk búið til að mæta þjónustu við nýja íbúa samhliða mikilli uppbyggingu í nýjum hverfum.  Í því sambandi má benda á byggingu skólahúsnæðis í Urriðaholtinu þar sem auk grunn- og leikskóla verður  íþróttahús, kennslulaug og bókasafn.    Í þriggja ára áætlun bæjarins er m.a. gert ráð fyrir að byggt verði fjölnota íþróttahús austan Reykjanesbrautar, viðbyggingu við Álftanesskóla, byggingu íbúða fyrir fatlað fólk við Unnargrund, endurnýjun Hofsstaðavallar með gervigrasi auk ýmissa annarra verkefna.

Ársreikningur Garðabæjar árið 2016