15. feb. 2017

Skrifað undir samstarfssamning við Stjörnuna

Gunnar Einarsson bæjarstjóri Garðabæjar og Sigurður Bjarnason formaður Stjörnunnar undirrituðu samstarfssamning Garðabæjar og Stjörnunnar til tveggja ára 7. febrúar sl. Í samningnum er kveðið á um gagnkvæmar skyldur samningsaðila um útfærslu á íþróttastarfi í Garðabæ. UMF Stjarnan skal hafa það að markmiði í starfsemi sinni að bjóða börnum og unglingum skipulagt íþróttastarf undir leiðsögn vel menntaðra og hæfra leiðbeinenda þar sem lýðheilsa og forvarnargildi íþrótta er höfð að leiðarljósi.
  • Séð yfir Garðabæ

Gunnar Einarsson bæjarstjóri Garðabæjar og Sigurður Bjarnason formaður Stjörnunnar undirrituðu samstarfssamning Garðabæjar og Stjörnunnar til tveggja ára 7. febrúar sl. Í samningnum er kveðið á um gagnkvæmar skyldur samningsaðila um útfærslu á íþróttastarfi í Garðabæ.  UMF Stjarnan skal hafa það að markmiði í starfsemi sinni að bjóða börnum og unglingum skipulagt íþróttastarf undir leiðsögn vel menntaðra og hæfra leiðbeinenda þar sem lýðheilsa og forvarnargildi íþrótta er höfð að leiðarljósi.  Einnig á félagið að hlúa að keppnis- og afreksíþróttafólki þannig að það geti náð sem bestum árangri.  Garðabær skal treysta fjárhagslegan rekstrar- og starfsgrundvöll félagsins með samkomulagi um afnot íþróttamannvirkja í bænum og beinum fjárframlögum. Í samningnum er nánar skilgreint um skiptingu framlags til íþróttaskóla Stjörnunnar, til almenns rekstrar, til afreksstarfssemi, afnota af íþróttamannvirkjum og framlags til þróunarverkefnis. 

Í samningnum er að finna nýtt ákvæði er varðar framlag til þróunarverkefnis.  Þróunarverkefnið felur í sér vinnu að verkefnum sem efla enn frekar starfsemi Stjörnunnar þar sem stefna ÍSÍ varðandi fyrirmyndarfélög ÍSÍ er höfð að leiðarljósi. Þróunarvinnan á meðal annars að fela í sér aukna möguleika fyrir iðkendur Stjörnunnar með tilliti til styttri æfingatímabila og fjölda æfinga og minnka þannig líkur á brottfalli og auðvelda börnum yngri en 10 ára að stunda fleiri en eina íþrótt.  Nánari útfærsla á þróunarverkefninu fer af stað á næstu vikum og framvinda verkefnisins og árangur verður kynntur reglulega.

Það er von samningsaðila að með þessum samningi muni Stjarnan vaxa og dafna enn frekar enda er félagið mikilvægur hluti af samfélaginu.

Á meðfylgjandi mynd má sjá frá vinstri:
Björgu Fenger formann íþrótta- og tómstundaráðs Garðabæjar, Gunnar Einarsson bæjarstóra og Sigurð Bjarnason formann Stjörnunnar í íþróttahúsinu Mýrinni / TM Höllinni.