10. feb. 2017

Góð aðsókn á Safnanótt og Sundlauganótt

Garðabær tók þátt í Vetrarhátíð sem var haldin dagana 2.-5. febrúar sl. Eins og fyrri ár voru söfn bæjarins þátttakendur í Safnanótt sem fór fram föstudagskvöldið 3. febrúar frá kl. 18-23.

  • Nemendur úr FGheimsóttu forseta Íslands á safnanótt2017

Garðabær tók þátt í Vetrarhátíð sem var haldin dagana 2.-5. febrúar sl.  Í tilefni hátíðarinnar voru ýmsar byggingar á höfuðborgarsvæðinu lýstar upp í grænum lit norðurljósanna og í Garðabæ voru Bessastaðir og Bessastaðakirkja lýst upp í grænum tónum og einnig efsti hlutinn á ráðhústurninum á Garðatorgi. 

Vel heppnuð Safnanótt

Eins og fyrri ár voru söfn bæjarins þátttakendur í Safnanótt sem fór fram föstudagskvöldið 3. febrúar frá kl. 18-23.  Fjölbreytt dagskrá var í boði í Bókasafni Garðabæjar á Garðatorgi, Hönnunarsafni Íslands og burstabænum Króki.  Óhefðbundnar leiðsagnir, myndlist, tónlist, töfrar og spákonur voru á boðstólum og margir lögðu leið sína í söfnin þetta kvöld.  Í ár var einnig opið hús á Bessastöðum frá kl. 18-22 þar sem nemendur úr Fjölbrautaskólanum í Garðabæ ásamt nemendum við HÍ aðstoðuðu með leiðsögn á staðnum.  Fullt var út úr dyrum allt kvöldið á Bessastöðum þar sem gestir gátu meðal annars skoðað Bessastaðastofu, fornleifakjallarann og kirkjuna.  Forsetahjónin heilsuðu upp á gesti á staðnum. 
Sjá frétt og skemmtilegar myndir á vef forsetaembættisins.

Hér á fésbókarsíðu Garðabæjar má sjá fleiri myndir frá Safnanóttinni.

Ljósadýrð í Álftaneslaug á Sundlauganótt

Að venju var einnig opið í Álftaneslaug á Sundlauganótt laugardagskvöldið 4. febrúar.  Ókeypis aðgangur var í laugina frá kl. 18-23 og gestir fjölmenntu í sundlaugina um kvöldið.  Öldudiskóið var á sínum stað og einnig var opið í rennibrautinni sem yngri gestir laugarinnar kunnu sannarlega að meta.  Öldulaugin og heitu pottarnir voru lýstir upp á skemmtilegan hátt með litríkum ljósum sem greinilega vöktu athygli manna langt út fyrir laugina.  Sundtæknikennsla Stjörnunnar var vinsæl sem og zumbatíminn í útilauginni.  Þau Ylfa Marín og Ásgeir Örn fluttu svo ljúfa tóna á sundlaugarbakkanum og kvöldið endaði með rólegri stemnningu.

Hér á fésbókarsíðu Garðabæjar má sjá fleiri myndir frá Sundlauganóttinni.