Bæjarból tók þátt í tannverndarvikunni
Leikskólinn Bæjarból tók þátt í tannverndarvikunni sem var haldin dagana 30. janúar - 3. febrúar sl. á vegum Landlæknisembættisins og Tannlæknafélagi Íslands. Fjölbreytt dagskrá þessu tengt var í leikskólanum þar sem börnin fengu fræðslu, sungu lag um tennurnar, hlustuðu á Karíus og Baktus og teiknuðu myndir. Veggspjöld með fræðslu um tannvernd fyrir bæði foreldra og börn voru hengd upp í leikskólanum.
Í lok vikunnar er hefð að vera með söngstund á sal á föstudagsmorgnum í skólanum og að þessu sinni kom tannlæknirinn Fríða Bogadóttir í heimsókn í skólann og hélt fræðslustund um tannburstun og mikilvægi þess að borða góðan mat. Börnin voru afar áhugasöm og sögðust meðal annars hafa lært á heimsókninni að maður þyrfti að bursta á morgnana og á kvöldin, að Karíus og Baktus gæti verið á milli tannanna og að það þurfi að setja tannþráð á milli. Ein stúlka sagði að það ætti að bursta tennurnar og ef að við borðum góðan mat verði tennurnar glaðar en ef við borðum sælgæti og burstum ekki verði þær leiðar.
Sjá einnig frétt og myndir á vef Bæjarbóls.
Fræðsla á vef Landlæknisembættisins um tannvernd.