Safnanótt og Sundlauganótt í Garðabæ
Vetrarhátíð verður haldin dagana 2.-5. febrúar nk. og Garðabær tekur þátt í Vetrarhátíð ásamt öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Í tilefni Vetrarhátíðar verða fjölmargar byggingar á höfuðborgarsvæðinu lýstar upp á meðan á hátíðinni stendur og í Garðabæ verður forsetasetrið á Bessastöðum lýst upp í grænum tónum í anda norðurljósanna og efsti hluti klukkuturnsins í ráðhúsi Garðabæjar.
Á fimmta tug safna víðs vegar á höfuðborgarsvæðinu taka þátt í Safnanótt sem verður haldin föstudagskvöldið 3. febrúar og níu sundlaugar taka þátt í Sundlauganótt laugardagskvöldið 4. febrúar nk. Aðgangur inn á söfn og sundlaugar er ókeypis á Safnanótt og Sundlauganótt. Dagskrá Vetrarhátíðar í heild má sjá á vef Vetrarhátíðar, vetrarhatid.is, en tímasetta dagskrá í Garðabæ má minna hér í viðburðadagatalinu á vefnum.
Safnanótt í Garðabæ- tímasett dagskrá
Sundlauganótt í Álftaneslaug - tímasett dagskrá
Heimboð á Bessastaði á Safnanótt 3. febrúar frá kl. 18-22
Fyrir nokkrum árum var opið hús á Bessastöðum í tilefni Safnanætur og í ár verður heimboðið endurtekið þegar gestum býðst að heimsækja forsetasetrið frá kl. 18-22 föstudaginn 3. febrúar. Þar verður boðið upp á leiðsögn um elstu staðarhúsin, Bessastaðastofu og Bessastaðakirkju, en þau voru reist á 18. öld. Einnig verður unnt að skoða muni og mannvirki sem fundust við fornleifarannsókn í fornleifakjallara á Bessastöðum. Nemendur úr Fjölbrautaskólanum í Garðabæ verða til aðstoðar gestum á staðnum.
Opið hús í Króki á Garðaholti á Safnanótt
Burstabærinn Krókur á Garðaholti verður með opið hús á Safnanótt frá kl. 18-23. Krókur er lítill bárujárnsklæddur burstabær sem var endurbyggður úr torfbæ árið 1923. Hjónin Þorbjörg Stefanía Guðjónsdóttir og Vilmundur Gíslason ásamt fjölskyldu bjuggu lengst af í Króki eða til ársins 1985. Í húsinu eru húsgögn og munir síðustu ábúenda til sýnis. Bærinn er gott dæmi um húsakost og lifnaðarhætti alþýðufólks í þessum landshluta á fyrri hluta 20. aldar. Börn sem koma í heimsókn í Krók á Safnanótt geta tekið þátt í ratleik á staðnum auk þess sem safnvörður veitir leiðsögn. Bílastæði eru við samkomuhúsið á Garðaholti, en Krókur staðsettur á gatnamótum Garðavegar og Garðaholtsvegar.
#einnádag og #teiknaðueinn í Hönnunarsafninu
Í Hönnunarsafni Íslands verður mikið um að vera á Safnanótt frá kl. 18-23. Þar verður boðið upp á leiðsagnir um sýningar safnsins, m.a. þar sem nemendur úr Fjölbrautaskólanum fara í hlutverk leiðsögumanna og segja frá völdum gripum, sjá nánar í frétt hér. Verkefnið #einnádag með listamanninum Elsu Nielsen hefst í safninu þetta kvöld þar sem hún teiknar einn stól á dag úr safneiginni fram að HönnunarMars þegar verkið verður sýnt í heild sinni.
Gestir eru einnig hvattir til að teikna mynd á staðnum #teiknaðueinn.
Uppistand, töfrar, vasaljósalestur og tónlist á Bókasafninu
Allir aldurshópar ættu að geta fundið eitthvað við hæfi í skemmtilegri dagskrá Bókasafns Garðabæjar á Safnanótt frá kl. 18-23. Dagskráin fer fram í aðalsafninu á Garðatorgi og þar verður m.a. boðið upp á vasaljósalestur, sýningaropnun, einkatíma hjá spákonu, tónlistaratriði nemenda, töfrabrögð, ljóðasmiðju, uppistand og hljómsveit.
Sundlauganótt í Álftaneslaug laugardaginn 4. febrúar kl. 18-23
Garðbæingar sem og aðrir hafa undanfarin ár verið duglegir að mæta í Álftaneslaug á Sundlauganótt sem verður í ár frá kl. 18-23 laugardaginn 4. febrúar. Það er ókeypis aðgangur í laugina á Sundlauganótt. Yngstu gestirnir geta tekið með sér dót í innilaugina í byrjun kvölds til að leika sér með. Sunddeild Stjörnunnar ætlar að bjóða gestum á öllum aldri upp á örkennslu í ýmis konar sundtækni. Hressileg tónlist verður í boði á sundlaugarbakkanum á meðan öldulaugin verður sett af stað. Zumba-tímarnir hafa einnig slegið í gegn og í ár verður aftur boðið upp á zumba í útilauginni. Söngkonan Ylfa Marín og gítarleikarinn Ásgeir Örn flytja hugljúfa tónlist við sundlaugarbakkann og kvöldið endar á rólegri stemningu í heitu pottunum.