27. jan. 2017

Vetrarhátíð 2.-5. febrúar 2017

Hin árlega Vetrarhátíð fer fram dagana 2.-5. febrúar nk. með þátttöku allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Safnanótt og Sundlauganótt eru hluti af Vetrarhátíð og eins og fyrri ár verður boðið upp á skemmtilega og áhugaverða dagskrá í söfnum Garðabæjar og Álftaneslaug af þessu tilefni.
  • Séð yfir Garðabæ

Hin árlega Vetrarhátíð fer fram dagana 2.-5. febrúar nk. með þátttöku allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.  Safnanótt og Sundlauganótt eru hluti af Vetrarhátíð og eins og fyrri ár verður boðið upp á skemmtilega og áhugaverða dagskrá í söfnum Garðabæjar og Álftaneslaug.  Í tilefni Vetrarhátíðar verða fjölmargar byggingar á höfuðborgarsvæðinu lýstar upp og í Garðabæ verður forsetasetrið á Bessastöðum lýst upp og efsti hluti klukkuturnsins í ráðhúsi Garðabæjar.

Safnanótt - 3. febrúar - tímasett dagskrá í Garðabæ
Sundlauganótt - 4. febrúar - tímasett dagskrá í Álftaneslaug

Öll dagskrá er á vef Vetrarhátíðar.  

Safnanótt í Garðabæ föstudaginn 3. febrúar kl. 18-23

Á Safnanótt, föstudaginn 3. febrúar, verður opið hús og fjölbreytt dagskrá frá kl. 18-23 í Hönnunarsafni Íslands, burstabænum Króki og Bókasafni Garðabæjar við Garðatorg auk þess verður opið hús á Bessastöðum (kl.18-22).

Heimboð á Bessastaði frá kl.18-22. Leiðsögn um elstu staðarhúsin, Bessastaðastofu og kirkjuna. Unnt verður að skoða muni og mannvirki sem fundust við fornleifarannsókn í fornleifakjallara.

Burstabærinn Krókur á Garðaholti er lítill bárujárnsklæddur burstabær sem var endurbyggður úr torfbæ árið 1923.  Þar geta börn tekið þátt í ratleikjum á staðnum.

Í Hönnunarsafninu verður boðið upp á leiðsagnir um sýninguna ,,Á pappír“ en auk þess verður boðið upp á öðruvísi leiðsögn þar sem nemendur úr Fjölbrautaskóla Garðabæjar fara í hlutverk leiðsögumanna og leiða gesti á milli greipa sem þau hafa valið að fjalla um á sýningunni ,,Geymilegir hlutir“.   Listakonan og hönnuðurinn Elsa Nielsen ætlar að hefja verkefnið ,,Einn á dag“ þar sem hún ætlar að teikna stóla Hönnunarsafns Íslands, einn stól á dag, þar til verkið verður frumsýnt á HönnunarMars.  Gestir Hönnunarsafnsins þetta kvöld fá einnig tækifæri til að teikna sjálfir hluti af sýningunni ,,Geymilegir hlutir“ og myndunum verður safnað saman og gerð skil m.a. á fésbókarsíðu safnsins.  Þeir sem sækja safnið heim geta líka tekið þátt í ratleik sem Hönnunarsafnið og Bókasafn Garðabæjar standa að og ýmsir vinningar verða í boði.

Í Bókasafni Garðabæjar við Garðatorg verður ýmislegt í boði fyrir alla aldurshópa, þar má nefna vasaljósalestur fyrir yngstu börnin og töframaðurinn Jón Víðis kemur í heimsókn og leikur listir sínar.  Spákonulesturinn sló í gegn í fyrra og verður á sínum stað í safninu þar sem gestir geta pantað sér tíma á staðnum.  Rytmabönd úr Tónlistarskóla Garðabæjar troða upp bæði á bókasafninu og einnig á Hönnunarsafninu á Safnanótt.  Í ár verður einnig boðið upp á grín og glens þegar Andri Ívarsson grínisti og tónlistarmaður verður með sprenghlægilegt uppistand með tónlistarívafi.  Í lok kvölds geta svo gestir notið ljúfra tóna hljómsveitarinnar Evu á bókasafninu.

Sundlauganótt í Álftaneslaug laugardaginn 4. febrúar

Álftaneslaug tekur þátt í Sundlauganótt sem að þessu sinni verður laugardaginn 5. febrúar frá kl. 18-23.  Ókeypis aðgangur er í laugina á Sundlauganótt.   Eins og áður verður boðið upp á dótasund í byrjun kvölds fyrir yngstu kynslóðina þar sem börn geta komið með smádót til að leika með í innilauginni í fylgd með fullorðnum.   Í ár geta gestir á öllum aldri einnig fengið örkennslu í sundtækni hjá sunddeild Stjörnunnar sem býður upp á kennslu í skriðsundi, bakskriðsundi, bringusundi, kafsundi og snúningi við bakka.  Öldudiskóið er alltaf vinsælt þar sem hægt verður að hlusta á hress lög við sundlaugarbakkann á meðan öldulaugin verður sett af stað.  Sundlaugargestir hafa undanfarin ár fjölmennt í zumbatíma sem verður á sínum stað í ár.  Einnig verður boðið upp á tónlistaratriði með söngkonunni Ylfu Marín og Ásgeiri Örn við sundlaugina.  Gestir geta svo slakað á í heitu pottunum það sem eftir er kvölds og notið rólegrar stemningar í lauginni.