17. jan. 2017

Verum vakandi í nágrannavörslunni

Minna er um innbrot og þjófnaði í Garðabæ en að meðaltali á höfuðborgarsvæðinu. Af gefnu tilefni vill lögreglan þó minna á nágrannavörsluna sem getur skipt sköpum við að upplýsa eða koma í veg fyrir innbrot
  • Séð yfir Garðabæ

Minna er um innbrot, þjófnaði eignaspjöll og ofbeldisbrot í Garðabæ en að meðaltali á höfuðborgarsvæðinu, miðað við hverja 1000 íbúa. Í tölfræði frá lögreglunni sést að innbrotum almennt, innbrotum á heimili og innbrotum í bíla fækkar á milli áranna 2015 og 2016 eftir að hafa fjölgað á árinu 2015 miðað við árið þar á undan. Í öllum tilfellum er fjöldinn umtalsvert lægri, miðað við 1000 íbúa en að meðaltali á höfuðborgarsvæðinu.

Földi tilkynntra ofbeldisbrota hækkar hins vegar frá 2015 til 2016 og telur lögreglan að það megi rekja til átaks gegn heimilisofbeldi sem hófst í maí 2015 og fólst í því að teknar voru upp nýjar verklagsreglur til að tryggja markvissari viðbrögð og úrræði gegn ofbeldi á heimilum.

Nágrannavarsla getur skipt sköpum

Undanfarna daga hafa nokkur innbrot á heimili átt sér stað á höfuðborgarsvæðinu, þ.á.m. í Garðabæ. Í ljósi þess vill lögreglan minna á nágrannavörsluna sem getur skipt sköpum þegar kemur að því að upplýsa innbrot eða koma í veg fyrir þau. Í frétt á vef lögreglunnar er sérstaklega minnt á "að útiljós séu kveikt þar sem þau eru til staðar, hvort sem um ræðir bakatil við hús eða að framanverðu. Slíkt einfaldar nágrönnum að sjá umferð/mannaferðir við húsin."  

Tölfræði frá lögreglunni um þróun brota 2013-2016,