17. jan. 2017

Vel sóttur fundur um miðsvæði Álftaness

Íbúafundur um miðsvæði Álftaness var vel sóttur og er greinilegt að Álftnesingar hafa mikinn áhuga á sínu nærumhverfi.

  • Frá íbúafundi um miðsvæði Álftanessí janúar 2017
    Frá íbúafundi um miðsvæði Álftanessí janúar 2017

Íbúafundur um miðsvæði Álftaness sem haldinn var fimmtudaginn 12. janúar var vel sóttur og er greinilegt að Álftnesingar hafa mikinn áhuga á sínu nærumhverfi. Dómnefnd í samkeppni um deiliskipulag miðsvæðisins boðaði til fundarins í þeim tilgangi að heyra sjónarmið og áherslur íbúa áður en keppnislýsing verður samin.

Í upphafi fundar ávarpaði Gunnar Einarsson bæjarstjóri fundarmenn og sagði frá ákvörðun bæjarstjórnar um að halda samkeppni um deiliskipulag svæðisins. Að því loknu tók Arinbjörn Vilhjálmsson, skipulagsstjóri Garðabæjar við og sagði frá forsendum og fyrirkomulagi samkeppninnar. Fundarmönnum var því næst skipt í fimm hópa þar sem leitast var við að ná fram sem flestum ábendingum, sjónarmiðum og áherslum íbúa. Ritari vann með hverjum hópi og tók niður það sem fram kom. Niðurstöður umræðnanna fara til dómnefndar og skipulagsnefndar sem vinna úr þeim.

Gunnar Einarsson bæjarstjóri segir að helsta áherslumálið í máli Álftnesinga hafi verið að tekið sé mið af leiðarljósinu um „sveit í borg“. "Það leiðarljós er til staðar í núgildandi aðalskipulagi Álftaness og í þeirri tillögu að aðalskipulagi Garðabæjar sem er að fara í auglýsingu, sem er lokastig aðalskipulagsferlisins. Á fundinum komu bæði fram óskir um að hugað væri að byggingum fyrir eldri aldurshópa og ungt fjölskyldufólk. Það er greinilegt að Álftnesingar vilja, eins og reyndar Garðbæingar almennt, að lögð sé áhersla á lágreista byggð. Tengsl við náttúruna er íbúum hugstæð og iðulega er fuglalífið nefnt fyrst í því samhengi. Einnig vilja íbúar að þjónustustigið sé áfram hátt og að hugað sé að stækkunarmöguleikum fyrir grunnskóla og leikskóla ef þörf reynist vegna uppbyggingar. Svo er greinilegt að íbúar sakna þess að ekki sé neinn verslunar-og atvinnukjarni á Nesinu. Þeirri spurningu er oft velt upp hvort uppbygging þannig kjarna gæti tengst uppbyggingu á þjónustu vegna sívaxandi ferðaþjónustu í kringum Bessastaði. Sumir veltu því þó fyrir sér hvort að það ætti ekki einmitt að skilja þar á milli. En ég er ánægður með það hve vel Álftesingar tóku kalli okkar, með því að fjölmenna á fundinn og taka virkan þátt í hugmyndaflæðinu."

Fleiri myndir frá fundinum eru á facebook síðu Garðabæjar