9. des. 2016

Kórahátíð og tónleikar á aðventunni framundan

Sunnudaginn 11. desember verður sannkölluð söngveisla í Garðabæ þegar kórar úr bænum koma saman og fagna alþjóðadegi kóra (World Choral Day) með tónleikum í Vídalínskirkju kl. 16. Framundan er einnig fjöldi tónleika í desember
  • Séð yfir Garðabæ

Sunnudaginn 11. desember verður sannkölluð söngveisla í Garðabæ þegar kórar úr bænum koma saman og fagna alþjóðadegi kóra (World Choral Day) með tónleikum í Vídalínskirkju kl. 16. Alls taka þátt sex kórar, Kór Hofsstaðaskóla, Kór Vídalínskirkju, Garðakórinn (kór eldri borgara í Garðabæ), Kór Sjálandsskóla, Sönghópurinn Söngdísir úr Tónlistarskóla Garðabæjar og Kvennakór Garðabæjar.

Kórahátíðin verður í formi nokkurs konar söngmaraþons þar sem hver kór syngur eigin dagskrá auk sameiginlegs söngs. Það verður sannarlega hlý og notaleg stemning í Vídalínskirkju þegar kórafólk á öllum aldri sameinast í sannri jólagleði og syngja öll fallegu jólalögin. Aðgangur er ókeypis og eru Garðbæingar og aðrir íbúar höfuðborgarsvæðisins hvattir til að fjölmenna enda fátt hátíðlegra á aðventunni en fallegur kórsöngur. Að kórahátíðinni stendur Kvennakór Garðabæjar í samstarfi við menningar- og safnanefnd Garðabæjar.

Tónleikar á aðventunni í Garðabæ

Tónlistarlífið blómstrar þessa dagana í Garðabæ og fjölmargir tónleikar hafa verið haldnir í bænum á liðnum vikum.  Framundan er einnig fjöldi tónleika í desember og þar má nefna tvenna tónleika í Vídalínskirkju laugardaginn 10. desember á vegum Þýska sendiráðsins til styrktar Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu.  Föstudaginn 16. desember halda þau systkin KK og Ellen jólatónleika í Vídalínskirkju. Mánudaginn 19. desember verður mikil jóla- og gospelsveifla í Vídalínskirkju þegar Gospelkór Jóns Vídalíns heldur sína árlegu jólatónleika.  Kammerhópurinn Camerarctica heldur einnig sína árlegu tónleika ,,Mozart við kertaljós" miðvikudaginn 21. desember í Garðakirkju.  Föstudaginn 23. desember verða svo glæsilegir Þorláksmessutónleikar söngkonunnar Jóhönnu Guðrúnar í Vídalínskirkju. 

Upplýsingar um tónleikana og fleiri viðburði í desember má finna hér í viðburðadagatalinu á vef Garðabæjar.