5. des. 2016

Ljósin tendruð á vinabæjarjólatrénu

Laugardaginn 3. desember s. voru ljósin tendruð á jólatrénu fyrir utan ráðhús Garðabæjar á Garðatorgi. Jólatréð er gjöf frá vinabæ Garðabæjar, Asker í Noregi, og í ár er þetta í 47. sinn sem Garðbæingar njóta þessarar vinagjafar þaðan.
  • Séð yfir Garðabæ

Laugardaginn 3. desember s. voru ljósin tendruð á jólatrénu fyrir utan ráðhús Garðabæjar á Garðatorgi.  Jólatréð er gjöf frá vinabæ Garðabæjar, Asker í Noregi, og í ár er þetta í 47. sinn sem Garðbæingar njóta þessarar vinagjafar þaðan.  

Það var hlýtt í veðri en rigningarsuddi þegar jóladagskráin fór fram á Garðatorgi á laugardaginn.  Blásarasveit Tónlistarskóla Garðabæjar lék fyrir gesti í upphafi dagskrár og spilaði vel valin jólalög.  Hilmar Ingólfsson, formaður Norræna félagsins í Garðabæ, bauð gesti velkomna. Í ár var fulltrúi Asker viðstaddur en það var Lene Conradi, forseti bæjarstjórnar í Asker sem afhenti tréð formlega til Garðbæinga og óskaði Garðbæingum gleðilegra jóla.  Gunnar Valur Gíslason, forseti bæjarstjórnar í Garðabæ, veitti trénu viðtöku og fékk svo tvo unga Garðbæinga, þau Hrafnhildi Sölku og Stefán Bjarna, úr 3. bekk í Flataskóla til að koma upp á svið og aðstoða við að tendra ljósin á jólatrénu.  Nemendur úr Flataskóla stigu síðan á svið og fluttu nokkur skemmtileg jólalög og fengu svo góða aðstoð frá þeim Stekkjastaur og Giljagaur sem ákváðu að mæta fyrr till byggða og heilsa upp á börnin á Garðatorgi.  Að lokum gátu gestir hlýjað sér innandyra og notið góðra veitinga frá Norræna félaginu í Garðabæ í samstarfi við verslunina Víði.

Fyrr um daginn gátu gestir meðal annars heimsótt Hönnunarsafn Íslands þar sem var ókeypis aðgangur í tilefni dagsins eða horft á jólasýninguna ,,Jólin hennnar Jóru" sem var sýnt í Bókasafni Garðabæjar.

Fleiri myndir frá laugardeginum má sjá í myndaalbúmi á fésbókarsíðu Garðabæjar.